Facebookvírusinn hefur gripið mig!

Jæja, nú er facebookið farið að virka hjá mér og ég að læra á kerfið. Mér finnst þetta voða skemmtilegt. Búin að sjá fullt af gömlum vinum og nýrri vinum og svo ættingjum. Ég er reyndar með svo gamalt windows að það vantar nokkra fídusa hjá mér... Þarf bara að redda mér windows xp...

Hér eru þvílík læti. Rebekka er með tvo vini í heimsókn og þau eru með hljómsveit! Úff mig langar í kertaljós, rólegheit og jólalög! Ætla sko að hafa það náðugt í kvöld.

Ég er búin að skrifa öll jólakortin! Svo nú er ég alveg til í að fara að baka. En facebookið er alveg að stela öllum tíma frá mér... Þarf bara smá sjálfsaga...

 


Facebookvinir mínir...

Þið sem hafið verið í sambandi við mig á Facebook. Sorry ef ég hef ekki svarað ykkur en allir vinir mínir nema einn eru dottnir út. Er ekki að skilja þetta. Ætti kannski bara að halda mig við íslenskt... er það ekki málið núna?


Annars er allt gott af okkur.


Blogglegt andleysi eða andlegt bloggleysi...

Ég er búin að vera alveg hrikalega andlaus síðustu daga og ekki dottið neitt sniðugt í hug til að skrifa hér... Ætla aðeins að reyna að bæta úr því...

Tengdó kom sl. fimmtudag og voru í borginni fram á sunnudag. Rebekka var að sjálfsögðu í essinu sínu og lét afa og ömmu snúast í marga hringi í kringum sig Smile. Afi fór að sjálfsögðu með stelpuna út að hjóla og var mín hæstánægð með það. Á laugardagskvöldið bættust Bryndís og fjölskylda í hópinn hjá okkur og borðuðu allir saman Dominos pizzur, mjög einfalt og þægilegt. Við áttum svo notalegt kvöld saman og spjölluðum um daginn og veginn. Rebekka fékk nýtt vesti af prjónunum hennar ömmu og er svo fín í því!

Annars er mest lítið að gerast hjá okkur. Við mæðgur ætluðum í Fíladelfíu í gær en við þurftum að keyra Gústa í Samhjálp um 3 leytið og sofnaði mín í bílnum á leiðinni. Ég bar hana inn heima og hún steinsvaf - í 3 klukkutíma!! Greinilega uppsöfnuð þreyta í gangi eða einhver slappleiki. Hún sofnaði samt rúmlega 9 í gærkvöldi og svaf til hálf 8 í morgun...

Á morgun er foreldraviðtal í leikskólanum og verður spennandi að heyra hvernig henni gengur núna. Annars þykist ég nú vita hvað ég fæ að heyra Wink. Svo er ömmu og afakaffi á morgun líka og ætlar mamma að kíkja á ömmustelpuna sína.

Jæja mér dettur ekkert fleira fréttnæmt í hug af okkur familíunni... Segi þetta gott í bili. Reyni að vera skemmtilegri næst Tounge


Fimmtudagskvöld í uppnámi og sunnudagar á laugardögum!

Ég trúi því varla að nú sé Klovn kominn í frí! Hvað á ég að gera núna á fimmtudagskvöldum þegar Gústi er ekki heima?! Reyndar varð ég fyrir smá vonbrigðum með síðasta þátt... Frank átti aldrei að fara niður á sama plan og Casper! Nú langar mig að láta semja nýjan þátt og breyta atburðarásinni... Hefði kannski átt að mæta í Iðu í vikunni og tala við karlana... En svona er livet.

Nutum fyrsta vetrardags í dag. Fórum í "sunnudaga"skólann í morgun upp í Ingunnarskóla en urðum að fara áður en hann var búinn því Rebekka átti að mæta í íþróttaskólann. Glataður tími fyrir sunnudagaskóla... En Rebekka var eitthvað voða slöpp í íþróttaskólanum og grunar mig að hún sé að fá einhverja kvefpest. Alla vega er horið vel grænt Pinch. Eftir skólana fórum við í Bónus að versla og urðum vör við nokkrar hækkanir... Svo fórum við aðeins í heimsókn til Söndru og var Ingvar Snær voða glaður að hitta Rebekku sína enda búinn að vera aðeins lasinn. Þaðan lá leið okkar í Árbæjarsafn en við komum við í Hraunbænum og tókum pabba með. Við röltum um Árbæjarsafn og enduðum í kakó og pönnukökum á kaffihúsinu þar. Mér fannst ég barasta komin í eitt af húsunum í Innbænum mínum. Ég sakna nú Tuliníusarhúss stundum... enda átti ég heima þar í 20 ár! Þegar heim kom fór Rebekka út með vini sínum úr næstu íbúð og ég skrapp í miðbæinn með Addý mágkonu. Við fórum í Iðu, fengum okkur kaffisopa og skoðuðum jólatímarit. Ég geri þetta alltaf reglulega að skreppa á kaffihús þar sem maður getur skoðað nýjustu tímaritin...

Jæja, best að hætta núna. Við Gústi ætlum að eiga notalegt kvöld saman - ekki ég við tölvuna Tounge


Af lifrapylsugerð, jólahreingerningum og kjötbollum.

Hér á bæ var maður vakinn kl. 7 í morgun, á sunnudegi! Ég reyndi allt sem ég gat til að fá litla orkuboltann til að lúra lengur en nei, þegar maður er vaknaður þá er maður vaknaður... Nú situr hún og horfir á jólamynd!!

Já, við erum farin að hugsa til jóla. Ég byrjaði á föstudaginn að gera eldhúsið hreint og er enn að! Það var nú alveg komin þörf á smá yfirferð þannig að þetta er nú kannski ekkert endilega "jólahreingerning" svona í ljósi þess að nú lætur enginn hanka sig fyrir að gera "jólahreingerningar"...

Í gær fórum við í kaffiboð til mömmu og þar voru öll systkini mín með flesta fylgihlutina. Þegar ég horfði svo á Spaugstofuna í gærkvöldi þá grunaði mig að Spaugstofumenn hafi verið hjá mömmu og stolið bröndurunum sem sagðir voru þar! Ég átti brandarann um hamstrana og Þorgils bróðir átti brandarann um verksmiðjuna í Hafnarfirði og gjaldeyrismálin! Já, við erum ótrúlega skemmtileg fjölskylda, svona fyrir þá sem ekki vita það nú þegar LoL 

Síðasta helgi fór í lifrapylsugerð! Já, já maður verður nú að gerast þjóðlegur á þessum krepputímum, ekki satt? Mér finnst reyndar ótrúlega fyndið þegar fólk segir svona því ég hef aldrei orðið "óþjóðleg". Meira að segja á góðæristímanum þá eldaði ég kjötbollur, kjöt í karrý og saltkjöt og baunir! Ég fór aldrei í þennan humar og þistilhjartaham. Ég er kannski bara ekki betri kokkur en það. Ég kann bara það sem mamma mín kenndi mér... Já, unnin kjötvara átti nú ekki upp á pallborðið hjá landanum en ég hef alltaf verið mikill kjötbolluaðdáandi og þær renna ljúflega niður hjá fjölskyldumeðlimum með káli, gulrótum, kartöflum og rófum, þið vitið þessu þjóðlega grænmeti... Og ekki má gleyma Ljóma smjörlíkinu. Nú verður sjálfsagt barist um hvern unninn kjötbita W00t meðan rucolað fær að mygla í búðarhyllunum.

Jæja, nú ætla ég að fara að klára eldhúsið og baka svo nokkrar klessur. Ég á von á vinkonu minni frá Akureyri í dag. Hlakka mikið til.

Lifið heil


Draumahelgi Rebekku o.fl.

Maður er nú heldur óframtakssamur hér á blogginu þessa síðustu og verstu tíma. Bara smá leti í gangi og svo hefur tölvan verið að slökkva á sér í tíma og ótíma og það er svona frekar pirrandi. En áðan vorum við Gústi að laga til í skápum hér og fann Gústi þá gamla, einhverja svona stöð fyrir tölvuna og nú get ég sett hana í samband gegnum þessa stöð og þá slekkur hún ekki á sér!! Jibbý hvað ég er glöð með að þetta er komið í lag. Var farin að halda að ég þyrfti að festa kaup á nýrri tölvu en nú er það óþarfi enda varla til peningar fyrir því...

Ég var í Glasgow um síðustu helgi og náði að eyða alveg fullt af pundum þar... Ég var svo heppin að geta keypt nokkur pund af einstakling sem ég þekki og borgaði rúmlega 100 kall fyrir pundið... Verslaði svo mikið af fötum úti að ég varð að kaupa auka ferðatösku... Við í Gylfaflöt vorum í vinnuferð og skoðuðum við nokkra staði sem vinna með fötluðum í Glasgow og nágrenni. Þessi ferð var alveg frábær í alla staði og lærðum við margt og mikið sem á eftir að nýtast í vinnu og bara okkur sem einstaklingum. Okkur var boðið á Fund raising dinner á hótelinu okkar í Glasgow og oh my oh my - þvílíkt galakvöld og við náttúrulega ekki alveg í stíl við það... En gaman var að sjá svona "event" og kíkja undir nokkur skotapils Whistling

Hér á þessum bæ er ekki kveikt á sjónvarpi fyrr en eftir alla fréttatíma. Maður er alveg kominn með gubbuna af allri þessari vitleysu sem er og hefur verið í gangi. Nú verður maður bara að bíða, því örlög okkar eru í annarra höndum, þe. fjárhagsleg örlög. Sem betur fer á maður Jesú til að halla sér að og fá hughreystingu hjá.

 Meðan ég var í Glasgow upplifði Rebekka draumahelgina sína! Hún og Gústi fóru á opnun Korputorgs tvo daga í röð... Hún hitti Íþróttaálfinn í bæði skiptin og náði að tala við hann og allt!! Sú var glöð, því hún er búin að vera að spyrja síðustu vikur hvenær hún fái eiginlega að hitta hann... Hún sýndi íþróttaálfinum hvernig hún stendur á höndum, svo sýndi hún honum dót sem hún fékk í búðinni og ræddi við hann um daginn og veginn. Hún hitti líka Sollu stirðu og Skoppu og Skrítlu. Sem sagt draumahelgi!

DSC00277

DSC00236

DSC00263

DSC00276


Yndislegust!!

Hún dóttir mín er nú alveg yndisleg, svona ef það hefur farið fram hjá einhverjum Smile. Það er svo gaman að horfa á hana stækka og þroskast og læra ný orð. Stundum hef ég samt svo gaman af orðaforðanum hennar sem er á einhvern hátt vitlaus... eins og dæmið með kleymóið sem ég sagði einhvern tíma frá hérna.

Hér koma fleiri dæmi:

*********************************************

Ég: Rebekka, voru íþróttir í salnum í dag?

Rebekka: Nei því NIÐUR mamma, það voru engar íþróttir!

********************************************* 

Rebekku finnst NÝÐI á kartöflum ekki gott...

*********************************************

Ég var að naglalakka hana í kvöld og svo fékk hún að prófa sjálf. Þá kom... Oh, mamma sjáðu, það kom naglalakk á NÝÐIÐ mitt (húðina)!!!

*********************************************


Ég hlakka svo til...

... á morgun!! En þá koma feðginin mín heim og ég fæ að knúsa þau aðeins. Vá hvað ég er búin að sakna Rebekku mikið og að sjálfsögðu hans Gústa míns líka...

Svo er bara íþróttaskólinn á laugardaginn og eftir það ætlum við að fara að taka upp kartöflur upp í sumarbústað. Ummmm nýjar gullauga eru eitt það besta sem ég fæ! Svo veit ég að Gústi og Rebekka voru að tína krækiber handa mér í dag svo það verður aldeilis veisla hjá mér um helgina.

Ég er alveg að missa mig yfir Klovn núna svo ég segi ekki meira í bili...


Ein og reyni að njóta þess ;o)

Nú er maður bara einn að kúldrast í kotinu. Rósin og Gústi eru upp í bústað. Þetta síðasta vikan hjá Gústa í sumarfríi og langaði okkur að leyfa Rebekku aðeins að njóta þess og fá smá ábót á sumarfríið. Það er líka smá sprengur fyrir mig að finna alltaf einhvern til að sækja hana á leikskólann fyrir mig þegar ég er að vinna til hálf5 svo þetta kemur vel út. Það er reyndar spáð ömurlegu veðri og ég hringdi og bauð þeim feðginum heim... en þau vilja vera lengur í sveitinni þó svo það sé rok og rigning. Þau njóta þess og Rebekku finnst líka gaman að brasa með afa Guðmundi.

Ég nenni ekki einu sinni að elda handa mér einni svo ég lifi bara á einhverju rusli... Svo var ég með svaka plön um að laga til og gera fínt en ég nenni því ekki og er bara í stöðugri slökun Cool

Ég fór með Rebekku í íþróttaskólann um síðustu helgi. Hún var sko búin að bíða eftir þessum degi síðan í maí!! Hún fór í 3 til 4 ára hópinn og var lang stærst og duglegust þar (og ég er ekki hlutdræg Wink) og ég var svo glöð þegar íþróttakennarinn kom og bauð Rebekku að koma í 5 til 6 ára hópinn! Hún átti að koma í þann hóp næsta laugardag en við ákváðum að vera áfram og skoða hópinn. Hún endaði í tveggja klukkutíma íþróttatíma og sagðist vera dálítið þreytt eftir það... Þarna er sko alvöru íþróttakona á ferð!

Mamma og Steindór eru komin heim. Jibbý! Ég er búin að sakna mömmu mikið og er svo glöð að geta skroppið núna í Funalindina í kaffi...

Jæja, Everwood  byrjað og Design Star rétt handan við hornið svo ég hætti núna...


Arg, allt mér að kenna...

Var búin að skrifa langa færslu en gleymdi að klikka á Vista áður en ég klikkaði á Skoða síðu!

Fúlt...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband