2.8.2007 | 00:33
Heiðra skalt þú...
... föður þinn og móður. Þegar ég leit inn til dóttur minnar áðan, áður en ég lagðist upp í rúm með fartölvuna í fanginu, (bara til að heyra andardráttinn hennar) fór ég að hugsa um allt dótið sem hún á. Jú, jú með auknum kaupmætti, auknu vöruframboði og öllu því hafa tímarnir aldeilis breyst frá því ég var lítil.
Mig langar að segja ykkur aðeins frá nokkrum hlutum sem standa upp úr í flóru æskuminninganna. Ég ólst upp í ósköp venjulegri fjölskyldu norður á fallegu Akureyri. Fjölskyldan mín var kannski að einu leiti ekki svo venjuleg en pabbi var sjálfstæður atvinnurekandi. Hann var og er trésmiður og leyfist mér að segja einn sá færasti á sínu sviði. Suma mánuði voru til fullt af peningum og þá var tækifærið notað og farið í ferðalög, heimilistæki updateruð og svo fram eftir götunum. Aðra mánuði var varla til fyrir salti í grautinn. Á þessum tíma var ekki þetta brjálæði í byggingariðnaði í gangi líkt og í dag og sumir mánuðir ársins gjörsamlega dauðir... En við lifðum þetta nú allt saman af og komum nokkuð heilbrigð útúr þessu öllu saman
Það var ekki á hverjum degi sem við fengum ný leikföng við systkinin svo það er auðvelt að muna eftir þeim leikföngum sem mér þótti ótrúlega spennandi að eignast. Það fyndna við það er að þau tvö leikföng sem standa allra hæst upp úr voru smíðuð af pabba mínum. Annað var veglegt búðarborð úr spónaplötum(viðskiptagenin létu snemma á sér kræla í þessum kroppi) en hitt var bogi og örvar sem pabbi bjó til úr rafmagnsröri, baggabandi og tálguðum spýtum. Á því tímabili var ég með Ronju ræningjadótturæði. Ég hafði farið í bíó á myndina með frænku minni úr Keflavík, henni Rósu og urðum við alveg dáleiddar af þessum persónum. Hún var Ronja og ég var Birkir. Póstburðarfólki á Akureyri og í Keflavík hefur vafalítið brugðið við að bera út póst til þessara persóna á okkar heimilisföng...
Ég naut þeirra forréttinda að hafa mömmu mína mikið heima við þegar ég var að alast upp. Systkini mín voru í heimavistarskóla og elsti bróðir minn löngu búinn að stofa eigin fjölskyldu svo við mamma gátum átt okkar stundir saman. Hæst standa þær stundir sem við löbbuðum í amtbókasafnið, byrgðum okkur upp með bókum, fórum heim, lögðumst á hjónarúmið og lásum með smá nammi í poka. Mamma kenndi mér að meta bækur og enn í dag eru það mínar kvolitístundir þegar ég get verið í einrúmi með góða bók. Þegar ég var að læra heima fannst mér líka alltaf best að sitja við stóra borðstofuborðið (sem pabbi smíðaði) og mamma var að brasa við kvöldmatinn í eldhúsinu.
Árið 1999 skildu mamma og pabbi. Næstu ár þar á eftir voru allri fjölskyldunni mjög erfið og mikill sársauki sem leystist úr læðingi á misjafnan hátt. Þrátt fyrir það mun ég ávallt heiðra föður minn og móður. Þau komu mér inn í þennan heim, önnuðust mig og gerðu mig að þeirri persónu sem ég er í dag. Í dag er ég enn að smíða með pabba (sumarbústað í þetta sinn) og við mamma hittumst næstum því á hverjum degi og hringjumst á oft á dag. Þetta kann ég að meta og vona að samband mitt við dóttur mína verði henni jafn dýrmætt og samband mitt við foreldra mína er.
Heiðrar þú föður þinn og móður?
Athugasemdir
Sæl Anna mín.
Það er alveg yndislegt að lesa þetta. Maður fær stundum svona minningarkast sjálfur og kann þá oft betur að meta ýmsar æskuminningar fjölskyldunnar. Það gefur fátt eins mikið og að heiðra föður sinn og móður. Foreldrarnir verða með tímanum þeir vinir sem ávalt standa upp úr þó svo að aðrir vilji bregðast.
Ég er t.d. orðin agaleg mömmu stelpa með árunum, allav. samkvæmt Hauki, sem getur lítið sagt sjálfur..
Bryndís Böðvarsdóttir, 2.8.2007 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.