6.8.2007 | 20:41
Mikið var nú...
... gott að koma heim þó svo helgin hafi verið alveg meiriháttar. Fórum af stað með fulllestaðan bíl áleiðis austur á Hellu um 3leytið á föstudaginn. Okkur vantaði orku á jálkinn svo við ákváðum að koma við á nýju Olísstöðinni í Norðlingaholti og fylla á. Þegar Gústi er að fylla á bílinn kemur til hans þekktur útvarpsmaður frá Rás 2 og vill fá hann í smá viðtal. Þá kom í ljós að Olís var að gefa bensínáfyllingar (við vissum það ekki þar sem við samviskusamlega vorum að hlusta á Lindina ). Við fengum þarna sem sagt 3.013 kr að gjöf frá Olís í formi 95 oktana bensíns. Ekki nóg með það!! Heldur fengum við einnig að gjöf ferða dvd spilara og 10 kvikmyndir! Þetta var lukkudagurinn okkar, við sem aldrei vinnum neitt (kannski af því að við spilum aldrei með í neinu...) Prófuðum um kvöldið að kaupa happadrættismiða til styrktar Samhjálp en komumst að því að útdrátturinn fer ekki fram fyrr en 31. janúar nk. og þá verður nú lukkudagurinn okkar löngu liðinn!! En takk Olís og Rás 2!
Leiðin lá þá næst á Hellu. Við keyrðum þangað með sælusmæl á fjésunum meðan dóttirin svaf í aftursætinu. Við leigðum þar lítið smáhýsi við Rangánna. Vorum þar alla helgina og keyrðum bara á daginn uppí Kot. Sem sagt smá breyting á gistingunni okkar frá því sem ég bloggaði í síðustu viku. Það var yndislegt að vera þarna í Árhúsum, mikil kyrrð, þrifið fyrir okkur á daginn, búið um rúmin og skipt um handklæði. Algjör snilld!
Við vorum búin að ákveða að þetta mót yrði tileinkað Rebekkunni okkar og fórum við með henni á allar barnasamkomurnar. Við foreldrarnir fórum ekki á eina einustu samkomu sjálf en það var sko bara allt í lagi því barnasamkomurnar voru æðislegar. Tónlistin og öll dagskráin voru bara meiriháttar. Rebekka var fyrst um sinn svolítið smeyk og feimin enda örlítið hjarta hér á ferð þegar kemur að hávaða og mannfjölda. Ef þetta hefði verið klettur til að klifra eða á til að busla í hefði mín nú ekki verið smeyk!! En þegar leið á mótið var hún mjög spennt yfir öllu saman og skemmti sér konunglega. Hún var bara hundfúl í morgun þegar hún fékk að vita að við værum að fara heim í "húsið okkar í Reykjavík" en ekki í "kirkjuna í sveitinni".
Við hittum margt fólk sem við höfum ekki séð lengi. Hittum Nicolinu frábæru frá Færeyjum, 6 ár síðan síðast! Hörpu frá Ísafirði, örugglega ár síðan síðast, Láru frá Akureyri, líka ár síðan síðast, Steinar frá Reykjavík (höfum ekki séð hann í ár því hann er búinn að vera í tónlistarnámi í USA). Svo hittum við fjöldan allan af vinum, kunningjum og fólki sem við svona "nikkum" til. Keyptum svo smá tónlist og nokkrar bækur og þrjár samkomur á dvd... Nóg að gera þegar við komum heim . Gærkvöldið var snilld í góðra vina hópi meðan Rebekka lék við besta vin sinn Mikael úti við í frábæru veðri. Brennan hans Geirs Jóns setti svo punktinn yfir i-ið.
Jæja, það varð nú ekkert úr því að ég sinnti húsmóðurstörfum í dag. Fórum beint í svaka kaffiboð til mömmu. Svo lagði ég mig aðeins þegar við komum heim (safna orku fyrir morgundaginn). Gústi grillaði restina af helgarmatnum ofan í fjölskylduna í kvöldmatnum og óhreina tauið er í haugum inni í þvottahúsi... Bíður betri tíma...
Ég vona að þið hafið átt jafn fjölskylduvæna og góða helgi og við.
Athugasemdir
Blogg frá þér, enn frábært. Takk fyrir samveruna á Kotmóti, þetta var bara gaman. Hlakka til að lesa bloggið þitt áframhaldandi...
Sara H. (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.