Margur verður af aurum múraður...

Í dag fórum við hjónakornin í bankann okkar sem staðsettur er í miðbænum og sóttum um nokkrar krónur að láni útá sumarbústaðinn okkar. Krónurnar ætlum við að nota til að klára að fríkka upp á bústaðinn og svo borga nokkrar aðrar óhagstæðar krónur sem við vorum nokkuð dugleg að safna á meðan ég var í námi, fæðingarorlofi o.s.frv. Alla vega, okkur fannst við vera að biðja um hryllilega háa upphæð en þá sagði þjónustufulltrúinn okkar að þetta væru nú bara smáaurar miðað við skuldir meirihluta fólks á okkar aldri sem er í viðskiptum hjá þeim... Jæja, þetta staðfesti enn frekar skoðun okkar á því að betra er að lifa aðeins ódýrara en kaffæra heimilinu í skuldum.

Já, við keyrum um á eldgömlum bíl miðað við flesta aðra bíla á götunum (´98) og við eigum bara 1 bíl, við verslum nánast allt til heimilisins í bónus, við kaupum flestan fatnað í frekar ódýrum búðum, við ferðumst eins ódýrt og við komumst upp með (ef okkur finnast ferðalög dýr þá gerum við bara eitthvað annað til að skemmta okkur), við eigum sko ekki nýjustu græjurnar - engan flatskjá, ipod eða dvd með upptöku, öll húsgögnin okkar höfum við keypt notuð nema rúmin okkar, rúmið hennar Rebekku og skrifborðið hennar og svona get ég haldið áfram. Þetta gerir það að verkum að ég get leyft mér að vinna ekki fulla vinnu og Gústi getur sinnt sínu áhugamáli af nokkurri festu. Við vinnum aldrei kvöld- eða helgarvinnu og mestur okkar tími fer í að sinna hvert öðru, Rebekku og nánustu fjölskyldu og vinum. Við ræktum okkar samband við Guð og við erum sannfærð um það að Hann gefur okkur nægjusemina sem þarf til að hafa hlutina svona. Auðvitað langar okkur oft að geta farið í búðir og keypt það sem okkur langar í en ef maður bara bíður af sér löngunina þá hverfur hún... Það er staðreynd.

Með þessu nýja láni breytist greiðslubyrði okkar og því munum við hafa meira á milli handanna til að borga skuldir hraðar niður. Ég fór nefnilega á námskeið hjá Ingólfi fjármálagúrú sl. vetur og lærði þar ýmislegt sem við getum nú farið að notfæra okkur. Gaman, gaman.

Annars er það að frétta að ég var heima frá vinnu í dag... Saknaði ungmennanna minna mikið... Ég vaknaði með hrikalegan höfuðverk sem ég get bara rakið til þreytu, vöðvabólgu og álags. Ég fór með Rebekku á leikskólann og svaf svo til kl. hálf 2. Eftir það leið mér mikið betur. Staðfesti grun minn um orsakavalda...

Mamma og Steindór koma heim í nótt frá Tyrklandi. Ég get varla beðið! Hlakka svo mikið til að fá mömmu heim já og Steindór auðvitað líka...

Rebekka er að byrja í íþróttaskóla í fyrramálið. Hún hlakkar mikið til þó svo hún viti nú ekkert hvað íþróttaskóli er... Hún heldur að hún sé að fara að læra hvernig hún á að gerast Íþróttaálfur LoL. Tilkynnti þetta með miklum hátíðleika í leikskólanum þegar við sóttum hana í dag. Hún er svo yndisleg. Svo er það sunnudagaskóli á sunnudaginn og barnakirkjan í Fíló á sunnudagseftirmiðdag. Ég var líka að frétta af barnaleikriti hjá Leikfélagi Mosfellssveitar um helgina... kannski við kíkjum á það... kostar bara 5oo kr. Mig langar samt ekki til að bóka helgina of mikið því síðastliðnar helgar hafa verið þó nokkuð pakkaðar...

Verð að lokum að segja frá því að ég skrapp í saumó á miðvikudagskvöldið. Það var alveg hryllilega gaman og mikið hlegið!! Ef einhver saumógellanna kíkja hér þá segi ég nú bara: takk stelpur fyrir frábært kvöld og fyrir að taka mér eins og ég er Wink.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband