7.10.2007 | 21:56
Ekkert kúrt um helgina...
... já það varð ekkert úr því að við Gústi kúrðum yfir eins og einni kvikmynd þessa helgina en við erum nú samt búin að hafa það ótrúlega náðugt. Í stað þess að Daníel og Benedikt kæmu og gistu hér á föstudagskvöldið var Rebekka boðin með þeim í "partý". Hún skemmti sér vel með krökkunum þar og borðaði góðan mat. Ég sótti hana svo um 9 leytið og hún auðvitað steinsofnaði í bílnum á leiðinni heim.
Á laugardagsmorgun hringdi svo Daníel og spurði hvort hann mætti koma með í íþróttaskólann, sætur... . Þau skemmtu sér vel í skólanum og Daníel var mjög duglegur að fylgja Rebekku gegnum allar þrautabrautirnar. Einn íþróttakennarinn hafði á orði að Rebekka væri óvenju styrk og góð í æfingunum svo við ættum endilega að koma henni í íþróttir sem fyrst. Það er reyndar ætlunin svo hún fái góða útrás fyrir alla orkuna sem í henni býr. Við fórum svo í bakarí eftir íþr.skólann og fengum okkur góðan snæðing.
Um tvö leytið fengum við svo góða heimsókn en þá komu sætu systkinin Mikael Björn og Þórunn Eva Yngvabörn til okkar. Þau gistu svo hjá okkur og voru hjá okkur fram yfir kvöldmat í dag. Föðuramma þeirra liggur fyrir dauðanum svo foreldrar þeirra reyna að eyða sem mestum tíma hjá henni á líknardeildinni. Það var alveg hreint yndislegt að hafa þau. Við vissum ekki af þeim og Rebekka þurfti mjög litla athygli þar sem hún var með góða leikfélaga. Þau Mikael hafa alltaf átt sérstakt samband og verið miklir vinir. Þau rífast aldrei heldur ná alltaf einhvern veginn að leysa hlutina á svo skemmtilegan hátt. Það er búið að vera góð reynsla að hafa þrjú börn á líkum aldri.
Í dag fórum við öll í sunnudagaskólann og aftur í bakarí... Svo fóru börnin út að leika með Gústa og svo fórum við öll í kaffi til mömmu. Þar belgdu sig allir út af skúffuköku og muffins... Við fórum svo heim í stað þess að fara í barnakirkjuna því við vildum hafa til mat handa Alís og Yngva svo þau þyrftu ekki að vera að hafa fyrir eldamennsku... Við áttum svo góða stund með þeim og að lokum voru systkinin klædd í náttföt, tannburstuð og voru væntanlega sofnuð áður en þau komust heim . Mörg "svo" í þessari málsgrein...
Gústi byrjar að vinna aftur í fyrramálið... ég hefði alveg verið til í að hafa hann heima aðeins lengur... en svona er nú bara lífið. Hann er reyndar búinn að vera mikið að vinna upp í bústað en það er búið að vera svo notalegt að hafa hann heima þegar við Rebekka erum að fara út úr húsi á morgnana. Þess fáum við bara að njóta 6 vikur á ári því hann mætir alltaf svo snemma til vinnu.
Jæja, nú er kominn háttatími, ný vinnuvika framundan en ótrúlegt en satt þá er ekkert kvöld í vikunni bókað!! Dásamlegt
Athugasemdir
Já, stelpan okkar er ótrúleg. Hlakka næstum til að fara ,,á völlin" í framtíðinni bara til að kvetja hana áfram
Ágúst Böðvarsson, 7.10.2007 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.