6.11.2007 | 22:10
Það er eins gott...
...að ég á ekki marga dygga lesendur því þá væri ég búin að valda svo gífurlega mörgum vonbrigðum sl. daga... Gott að þetta eru bara örfáir sem líta hér inn og sjá ekkert nýtt... En tölvan er búin að vera að stríða mér, slekkur á sér í miðjum klíðum og svona gaman gaman. Gústi komst að því að það er víst ekki gott fyrir plöggin að sitja með tölvuna í fanginu í sófanum og hnoðast á plöggunum... Einhver smá bilun þar en svo lengi sem ég nenni að sitja við borð með tölvuna og hreyfa hana ekki, þá get ég notað hana.
Við Rebekka erum grasekkjur þessa stundina þar sem Gústi er stunginn af til Svíaríkis. Honum var boðið þangað og hvernig getur maður sagt nei við útlöndum "on the house"? Hann er sem sagt með biblíuskólanum í Fíladelfíu þarna úti og á eitthvað að vera að spilast fyrir svíann. Það er bara gott mál og vona ég að hann eigi frábæran tíma þarna úti og komi eldheitur í Guði til baka. Ekki það að ég sakna hans og hlakka til að sækja hann á völlinn í næstu viku.
Síðasta vika leið í eins konar móki hjá mér. Ég var ekki alveg á meðal vor þá dagana. Var heima frá vinnu í tvo og hálfan dag. Ég held að ég hafi verið með einhverja leyniflensu því ég hafði engan hita, ekki beinverki eða neitt þannig heldur bara hrikalega vanlíðan í öllum kroppnum og sérstaklega í gamla bakinu mínu... Mér fannst ég líka geta sofið endalaust, en Guði sé lof því ég er vöknuð til meðvitundar. Mætti eldhress til vinnu á mánudaginn.
Tengdó kom um síðustu helgi, Bryndís mágkona átti 35 ára afmæli sl. föstudag. Við fórum öll í kaffi til hennar þann dag. Á laugardag komu svo tengdó til okkar og eyddu deginum með okkur, ég reyndar bara hálf einhvern veginn (samt ekki rallhálf). Rebekka Rós fór í hjólatúr með afa sínum og kom útsofin tilbaka . Hún var í stól aftan á hjólinu hjá afa og steinsofnaði bara. Afi græddi heilmikið í ferðinni, náði að líta haförn og rjúpur augum... hér í borginni takk fyrir.
Gústi og pabbi voru svo í Ölver á sunnudaginn að pússa parketið á stofunni. Pabbi ætlar svo að olíubera parketið á morgun og þá verður bráðlega hægt að fara að fara með húsgögn upp eftir. Mikið hlakka ég til!! Eigum eftir að eyða mörgum helgunum í sveitasælunni!!
Á morgun er starfsdagur í leikskólanum og verðum við mæðgur heima. Rebekka fékk að bjóða tveimur vinum í heimsókn og munu Helgi og Gréta mæta hér um 10 í fyrramálið í leikhitting. Ungfrúin er mjög glöð með það og ætlar að baka köku í fyrramálið. Hún er reyndar ekki sofnuð ennþá en hún er frekar morgunhress svo ég hef ekki þungar áhyggjur af því.
Annars erum við byrjaðar að ræða jólin. Rebekku finnst jólin voða merkileg og veit alveg að Jesú á afmæli þá . Hún er á fullu að teikna jólasveina og jólatré, að minni beiðni reyndar því mig langar að setja mynd eftir hana á jólakortin í ár. Við erum líka farin að undirbúa opið hús í vinnunni og þar með ýmislegt sem tengist jólunum. Mér finnst ég alltaf í rosa jólaskapi allan nóvember og fram í desember en svo kemur einhver tómleikatilfinning í mig. Sérstaklega á aðfangadag. Ég held að það sé vegna þess að ég vil ekki bíða í heilt ár eftir að geta endurtekið leikinn... En við Gústi erum byrjuð að kaupa jólagjafirnar og ætla ég að klára það sem fyrst og ekki eiga neitt svoleiðis eftir í desember! Langar bara að njóta aðventunnar yfir heitu kakói og smákökum... Ummmmmmmm
Góða nótt!
Athugasemdir
Sakna ykkar líka. Kysstu Rebekku frá mér. Fáum aðgang að þráðlausa netinu hér í kirkjunni.
Ágúst Böðvarsson, 7.11.2007 kl. 07:18
Já ég hef líka fengið einhverja svona leyniflensur. Var með "leyni-ælupest". Var með ógleði og almenna vanlíðan en ældi ekkert...? Svona er þetta bara stundum, eins og við hin fullorðnu fáum þetta í minna mæli...
Takk fyrir síðast! Var gaman að fá gesti, þrátt fyrir að ég hafi alls ekki ætlað að halda upp á neitt afmæli.... Er hætt að pæla í aldri... Vil hugsa sem minnst um það.
Bryndís Böðvarsdóttir, 9.11.2007 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.