Fýluferð á slysó í gær...

Já, við fórum eina ferð á slysó í gær með hana Rebekku okkar. Við áttum að vera á leiðinni í skírn í Keflavík en hún elsku dóttir okkar tók upp á því að gleypa silfurhringinn sinn sem hún fékk í gjöf frá Birnu fyrrum dagmömmu okkar. Hún alla vega grét sárt og fullyrti að hún hefði gleypt hann. Til að gera langa sögu stutta vildi læknir sem við töluðum við að teknar yrðu röntgenmyndir af frökeninni til að vera þess fullviss að hringurinn hefði farið í magann en sæti ekki fastur á einhverjum óæskilegum stað. Eftir tvær myndir og margar afsökunarbeiðnir (því það fannst enginn hringur á myndunum!!) fannst hringurinn úti í bíl, grafinn inn í bólstrið á barnastólnum! Við biðum heillengi eftir að fá að fara, fyrst við vorum komin inn í kerfið varð læknir að gefa okkur grænt ljós og bið var á honum. Á endanum fór ég eins og bjáni í afgreiðsluna og bað um fararleyfi fyrir okkur þar sem hringurinn væri nú kominn í leitirnar! Allir voru voða skilningsríkir en við vorum frekar leið yfir að eyða tíma heilbrigðisstarfsfólks til einskis. Kenningin er sú að Rósin okkar hafi verið með hringinn upp í sér, hann hrokkið útúr henni og hún einhvern veginn skynjað það þannig að hún hafi kyngt honum... En við lærum öll af þessu, bæði við foreldrarnir og litla dúllan okkar...

Við misstum af skírnarathöfninni en mættum í veisluna og fengum þar góðar veitingar. Verið var að skíra litlu stelpuna hjá Snjólaugu og Fúsa og hlaut hún nafnið Lilja María. Það var mjög gaman að hitta góða ættingja og njóta samvista við þá.

Gústi fór svo á kótilettukvöld í Samhjálp í gærkvöldi. Hann var að spila. Ég vildi ekki fara með því við vorum ekki með pössun og svo þurfti ég að fara upp á leikskóla kl. 9 í morgun að undirbúa jólaföndur. Gústi bloggar nú kannski um þetta kvöld... humm Gústi...

Í morgun var svo nóg að gera, fyrst undirbúningur hjá mér og svo hitti ég feðginin í sunnudagaskólanum þar sem við áttum notalega stund (á stundum frekar of rólega Sleeping) og svo fórum við öll saman á leikskólann þar sem við föndruðum saman alls kyns jóladót og skreyttum piparkökur. Þetta var mjög skemmtilegt og Rebekka mjög dugleg.

Ég fékk svo að fleygja mér (ekki á færeysku þó) í smá stund þegar heim kom en svo kíkti pabbi í heimsókn og þá var mér ekki til legunnar boðið lengur. Við drukkum eftirmiðdagskaffi saman. Rebekka fékk svo að hringja í Grétu Júlíu vinkonu sína og bjóða henni í heimsókn. Hún var komin innan 5 mínútna og voru þær stöllur mjög góðar að leika sér. Þær voru með jólatónlist á og var alveg yndislegt að hlusta á þær syngja með! Það verða örugglega ekki mörg árin þar til Rebekka gefur út sinn fyrsta geisladisk...

Jæja nú ætla ég að hætta. Maður ætti kannski að blogga aðeins oftar og styttra í einu... Þetta eru orðnar hálfgerðar langlokur hjá mér...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Þetta minnir mig á einhvern....  Já, eiginlega minnir þetta á mig! Eitt sinn þegar ég var lítil skessa festi ég perlu inni í eyranu á mér og þurfti að fara til læknis... Þetta vakti mikla kátínu í fjölskyldunni... Þ.e. eftir á...

Bryndís Böðvarsdóttir, 27.11.2007 kl. 22:21

2 Smámynd: Þorgeir Arason

Já það er stundum rólegt í sunnudagaskólanum, kannski við ættum að reyna að vekja foreldrana betur

Þorgeir Arason, 9.12.2007 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband