10.1.2008 | 20:05
Gleðilegt...
...ár kæru lesendur! Hér hefur nú verið ósköp rólegt síðustu vikur enda nóg annað að gera en að blogga einhverja vitleysu...
Jólin og áramótin voru yndisleg. Áttum góða daga með góðum mat, ættingjum og vinum. Er hægt að hafa það betra? Það helsta sem gerðist var að við vorum með kakó og smákökur fyrir systkini mín laugardaginn fyrir jól. Mamma eyddi aðfangadagskvöldi með okkur. Við fórum svo í hangikét til hennar á jóladag. Við mæðgur fórum svo í sjötugsafmæli Öggu frænku á annan. Helga frænka kom í heimsókn frá Sólheimum og gisti eina nótt hjá okkur. Fórum í matarboð til Böðvars og Ástu. Vorum svo á gamlárskvöld hjá Þorgilsi bróður og Ernu. Þar voru líka mamma, pabbi og pabbi Ernu. Það var fínt og Rebekku fannst mjög spennandi að skjóta upp með pabba sínum. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er ekki grenjandi af hræðslu á gamlárskvöld. Gústi var, eins og alltaf, mikið að vinna yfir hátíðarnar... Enda gósentíð ruslakarla. Hann var nú að keyra sem er aðeins skárra en að trilla... Við mæðgur fengum einn aukafrídag þar sem það var starfsdagur á leikskólanum 2. jan.
Lífið komst svo í rútínu 3. jan þegar allir mættu í vinnu og á leikskólann. Margt spennandi framundan í vinnunni hjá mér bæði í verkstjórastarfinu og í ímyndarhópnum hjá SSR. Erum að fara í gang með fullt af nýjum verkefnum. Rebekka byrjar í íþróttaskólanum nk. laugardag og svo er hún á fullu að æfa sig á línuskautunum sem hún fékk í jólagjöf frá okkur. Hún er ótrúlega flínk á þeim og við erum líka búin að fara nokkrum sinnum á skauta í Egilshöll og þar er hún líka að brillera. Er byrjuð að prófa að sleppa grindinni. Hún er nú líka algjör íþróttafrík þessi stelpa okkar. Hún er mjög ákveðin í því hverju hún vill klæðast og eru íþróttaföt þar efst á lista, næst eru gallabuxur og svo langneðst eru "fín" föt en það eru öll önnur föt... Hér er oft dálítil togstreita á morgnana... En við fórum í gang með límmiðakerfi í byrjun árs sem er að koma ágætlega út og svo fara línuskautarnir reglulega inn í geymslu þegar sumir rassar geta ekki setið kyrrir við kvöldmatarborðið eða sum eyru eru lokuð...
Gústi er byrjaður að spila með öðru lofgjörðarbandi sem spilar á samkomum á miðvikudagskvöldum. Hann er því að spila bæði miðvikudags- og fimmtudagskvöld. Sem betur fer eru æfingar samdægurs svo þetta er ekki að hafa mikil áhrif á fjölskyldulífið... Ég er líka svo glöð að hann er farinn að starfa meira með Halldóri Lár því þeir hafa alltaf átt svo gott samband.
Sumarbústaðurinn er að verða tilbúinn innanhúss! Við fórum upp eftir um síðustu helgi og röðuðum upp húsgögnum svo nú er hægt að sitja til borðs við að borða og liggja í sófanum og horfa á tv... Auðvitað er margt sem á eftir að gera en það kemur allt með tímanum. Þetta er jú framtíðarverkefnið okkar...
Jæja, þá er enn ein langlokan mín á enda... Eigið gott kvöld!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.