2.2.2008 | 11:36
Reikningar og mosaik.
Mikið er það nú alltaf hreint indælt þegar allir reikningar eru greiddir og ekkert þarf að hugsa útí í svoleiðis dót fyrr en um næstu mánaðarmót. Ég er sem sagt búin að sitja í fartölvunni í morgun að borga og borga á meðan Gústi og Rebekka fóru í íþróttaskólann. Ég er samt ekki alveg að höndla að vera heima núna því það er allt á hvolfi! Heimabíóið var komið á sinn stað um 1 í nótt og allt voða fínt kringum það en restin af íbúðinni í rúst (á minn mælikvarða)... Gústi greyið er dæmdur til að ganga almennilega frá þegar hann kemur heim... Fullt af tækjum og tólum sem fara í stúdíóið til geymslu... Á samt eftir að sakna gamla dvd spilarans okkar... Hann fer örugglega bara upp í bústað þar sem ég get hitt hann af og til.
Annars erum við Gústi farin að stunda samfélag sem heitir Hvítasunnukirkjan Mosaik. Þetta er nýtt samfélag og er verið að stofa það sem nýjan anga innan Hvítasunnuhreyfingarinnar. Já, það eru ekki daglegar fréttir að ný hvítasunnukirkja sé sett á laggirnar í Reykjavík en við hjónin erum mjög ánægð með þessa þróun. Halldór vinur okkar er forstöðumaður í nýju kirkjunni ásamt Tedda vini okkar líka. Gústi er að spila á bassann í lofgjörðinni og loksins fæ ég að heyra hann syngja en það hefur hann ekki gert í nokkur ár, bara einbeitt sér að spileríinu. Við hittumst í Samhjálp enn um sinn, á miðvikudagskvöldum og Rebekkan okkar kemur með okkur. Hún er þvílíkt ánægð þarna. Vill reyndar minnst vera í barnapössuninni og finnst mér það í góðu lagi því það er mín skoðun að börnin eiga að vera með foreldrum sínum í kirkju. Þ.e. sjá foreldra sína sem fyrirmynd en ekki vera alltaf bara í pössun eða í barnastarfi. Rebekku finnst rosa spennandi að sjá pabba sinn spila. Hún situr stundum við hliðina á honum og dillar sér með. Mér finnst það æðislegt því hún er þegar farin að tala um að vilja spila líka. Hún vill spila á hljómborð og síðast fékk hún að spila á hljómboðið hjá henni Hönnu sem er í lofgjörðinni. Fyrir næsta miðvikudag fær Rebekka biblíuveski sem við keyptum handa henni í Oslo Kristne Senter fyrir einu og hálfu ári síðan. Nú er rétti tíminn.
Verð að játa svolítið. Ég er alveg dottin í Omega. Nú sit ég og horfi á Robert Schuller, Jimmy Swaggart, T.D.Jakes og fleiri og er alveg að sjúga í mig þessa þætti. Horfi reyndar ekki á íslenska efnið og myndi heldur aldrei játa það á netinu ef svo væri... En ég ætla að ljúka þessari færslu með einkunnarorðum Kristal Kaþíedral kirkjunnar í USA; Þekking - Kærleikur - Þjónusta
Þekkjum Guð svo við getum elskað náungann og þjónað heiminum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.