13.4.2008 | 22:09
Gylltir þræðir, gersemin okkar.
Jæja, þá er komið að því. Við komin til Reykjavíkur og litla rósin okkar hjá ömmu og afa á Akureyri. Mikið var nú erfitt að kveðja hana. Hún grét og kallaði á okkur og ég grét langleiðina upp á Öxnadalsheiði... Týpíst ég... Við vorum búnar að tala mikið saman um það að nú ætlaði hún að vera ein í nokkra daga hjá afa og ömmu og við pabbi ætluðum til Danmerkur á meðan. Hún var alveg sátt við þetta allt saman og mjög spennt að vera á Akureyri í nokkra daga, þangað til....... að hún vaknaði sl. nótt með 39° hita! Þá var nú mín ansi meyr og vildi bara vera hjá okkur, sem hún elskar alveg upp í geim! Já, það gerði það nú erfiðara fyrir móður með aðskilnaðarkvíða að skilja barnið eftir lasið... Þó svo ég viti alveg að hún er í góðum höndum og vel er um hana hugsað.
En svona er nú það. Við keyrðum sem leið lá suður á bóginn, stoppuðum í sumarbústaðnum okkar í Ölver og þar var pabbi búinn að grilla læri handa okkur, nammi namm. Fengum læri í gær líka, hjá tengdó svo þetta er búin að vera algjör gúrmei helgi! Brynjuísinn var á sínum stað fyrir norðan og rúnturinn líka... Heimsóttum engan í þessum túr, vorum bara í Vanabyggðinni að anda að okkur Rebekkunni okkar. Í nótt þegar hún var loksins sofnuð aftur lágum við Gústi, horfðum á hana í ljósinu frá lampanum og sáum hvernig gulllituð slikja var yfir hárinu á henni. Hún er svo falleg! Ég var varla komin inn úr dyrunum áðan en ég var búin að hringja í hana. Amma var að lesa Leikhús Barbapabba fyrir hana og hún bara sátt við lífið. Bíður í ofvæni eftir glimmerspreyinu sem við lofuðum að kaupa í Köben...
Annars af Köben ferðinni. Við leggjum í´ann annað kvöld, gistum á Flughótel Keflavík og fljúgum svo út eldsnemma á þriðjudagsmorguninn. Við gistum á gistiheimili á Amager sem íslendingar reka og sýnist okkur á heimasíðunni þeirra að þetta sé ágætis gistihús. Pabbi ætlar að líta eftir íbúðinni okkar á meðan. En nú er kominn tími til að fara í háttinn, vinna á morgun og svo pakka niður!
Til Rebekku Rósar okkar: elsku hjartans yndið okkar. Við elskum þig líka alveg út í geim. Þú ert svo dugleg að passa ömmu og afa á meðan við erum í Danmörku. Við vitum að þú átt eftir að gera svo margt skemmtilegt á Akureyri og tíminn líður svo hratt. Mamma og pabbi eru líka að reyna að vera rosa dugleg meðan þú ert ekki hjá okkur og við erum öll orðin svo stór að þetta gengur allt vel
Við elskum þig Kveðja mamma og pabbi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.