15.4.2008 | 20:39
Glimmersprey, blöðrur og lífshætta!
Það var eldsnemma í morgun sem við nudduðum stírur úr augum, sturtuðum okkur og fórum í morgunverð á Icelandair Flughóteli í Keflavík. Ok, morgunverðurinn var ekki neitt til að hrópa húrra yfir en dugði þó til að koma okkur sem leið lá í flugstöðina. Þar geymum við bílinn og verður hann þrifinn hátt og lágt á meðan við erum í fríi. Það er nú smá lúxus sem við vorum búin að ákveða fyrir löngu síðan að veita okkur...
Við komumst skammlaust í gegnum innritunina og tollinn... Ég saknaði reyndar heklunálarinnar sem varð að fara með í innritaðan farangur. Við skoðuðum okkur um í flugstöðinni enda margt breytt síðan síðast. Kl. 7 vorum við komin um borð í vélina og svo var lagt í´ann kl. 7:15. Ég steinsofnaði fljótlega og vaknaði klukkutíma seinna bara til að færa mig. Þar sem vélin var alls ekki full gat ég farið í þrjú sæti og lagst fyrir . Mér fannst það fínt fyrir utan að vakna með koddafar á kinninni... Við lentum í Köbenhavn kl. 12:10 að staðartíma. Þá tók við smá upplýsingaleit og á endanum tókum við leigubíl að gistiheimilinu þar sem við erum. Það er ósköp látlaust en kósí og mikill kostur að hér er þráðlaust netsamband...
Eftir að hafa hent af okkur farangri skruppum við í göngutúr... Hann varði reyndar í 6 klukkutíma! Tveimur götum frá gistiheimilinu er stór verslunargata sem heitir Amagerbrogade. Hana gengum við langleiðina að miðbænum og kíktum í nokkrar skemmtilegar búðir. Það var á þessari götu sem við lentum í lífshættu í dag og vorum næstum keyrð niður af........hjólreiðabrjálæðingum. Ok, við stóðum reyndar út á miðjum hjólreiðastíg (við hliðina á gangstéttinni) en hvers má vænta af saklausum íslendingum?? Við stukkum fimlega upp á gangstéttina og rétt náðum að bjarga okkur frá því að verða hjólreiðamönnum að bráð...
Að lokum hoppuðum við upp í strætó og tókum hann að Ráðhústorginu. Um borð var gömul kona sem bablaði við okkur á nánast óskiljanlegri ensku. Hún heyrði að við vorum að ræða um tívolíið og lagði saman tvo og tvo og sagði okkur að fara út á sama stað og hún. Svo gerðist hún persónulegur gæd fyrir okkur og lýsti því sem mátti sjá á leiðinni í strætónum. Í staðinn urðum við að hjálpa henni út úr stætó og bera hellings farangur fyrir hana! Við báðum ekki um þetta...
Við tók Strikið. Við röltum þar í um þrjá tíma með viðkomu á Manhattan pizzeria og H&M... Þar keyptum við langþráð glimmersprey sem Rebekka spyr um í hvert sinn sem ég heyri í henni... Við keyptum líka ýmislegt handa ungfrúnni og tvær afmælisgjafir. Ég var mest ánægð með vetrarúlpuna sem ég fékk á 70% afslætti. Hér kemur nefnilega sumar en það er alltaf viss óvissa heima með sumarið...
Við vorum komin heim á gistiheimilið um hálf 8 og þá var Gústi kominn með blöðrur á tvær tær og ég orðin aum í iljunum.... Við lögðumst upp í rúm eins og gamlingjar og erum þar enn. Ég búin að sofa í allt kvöld og Gústi í sudoku. Svaka spennandi... Sjónvarpsrásirnar tvær hafa ekki einu sinni náð að fanga okkur... Auglýsingarnar virðast vera mest spennandi...
Til Rebekku:
Jæja, Rósin okkar. Nú eru mamma og pabbi komin til Danmerkur og það var svo gott að heyra í morgun að þú værir orðin hitalaus. Ég hlakka til að heyra í þér í fyrramálið! Er ekki búið að vera svaka gaman hjá afa og ömmu? Það er ég viss um. Við erum búin að kaupa glimmerspreyið handa þér og ný sundföt!! Þú verður nú aldeilis flott með þetta. Þú ert svo dugleg stelpa og við elskum þig! Heyrumst á morgun, ljósið okkar.
Kveðja mamma og pabbi
Athugasemdir
Gangi ykkur vel kæru vinir og Gústi; farðu vel með blöðrurnar... Það gekk vel í kvöld hjá Raspinu!!!! Þurftum bara að biðja tvisvar um uppklapp...Bjössi stóð sig vel á fimm strengja bassanum... veit ekki um þína framtíð!!!! Gætir kanski fengið að spila á gítar ef þú biður vel. Það er talað um að koma fram á næstu Hróarskleduhátið. Við fórum vel með Að krossinum...ekkert reggae í þetta skiptið..Elsku vinir, komið þið heil heim og Guð verndi ykkur.
Guðni Már Henningsson, 16.4.2008 kl. 00:37
Ég vissi að Bjössi myndi redda þessu. Enda kom ég honum á sporið á sínum tíma. Eða þarf ég kannski að sjá eftir stöðunni...? humm...
Annars liggjum við flöt núna, alveg búin eftir gærdaginn, en stefnum í bakarí svona hvað úr hverju...
Ágúst Böðvarsson, 16.4.2008 kl. 10:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.