Mama Rosa, Rósa og rosa notalegur dagur!

Jæja, nú er dagur tvö í Köben að kveldi kominn og við vorum að koma inn úr dyrunum. Kl. að verða miðnætti á dönskum tíma. Í dag var stóri hvíldardagurinn hjá okkur!! Við vöknuðum, sofnuðum, vöknuðum, lúrðum, lásum, sofnuðum, vöknuðum alveg til kl. 15 að staðartíma (13 á ísl. tíma). Vá hvað það var yndislegt...

Við drösluðumst í sturtu og skruppum svo í Fields, sem á að vera stærsta verslunarmiðstöð í Skandinavíu. Þar fengum við okkur "morgunmat" í Bagel kompaniet. Svo tók við smá verslunarhrina. Það var sko rigning úti í dag svo okkur fannst allt í lagi að versla smá, þó svo þetta hafi nú ekki átt að vera verslunarferð. Gústi er að verða alvöru tískugúru... Hann er búinn að kaupa meira af fötum en ég... Alveg tvennt, meðan ég er búin að kaupa mér eina peysu Joyful.

Við tókum svo lestina í miðbæinn. Það var farið að rökkva og við gengum niður að Nyhavn. Voða rómó í kvöldhúminu... Svo gengum við upp á Strikið og settumst inn á stað sem heitir Mama Rosa. Ég hef borðað þar einu sinni áður og mundi að þar eru æðislegar pizzur. Á meðan við vorum á Mama Rosa fékk ég sms frá Rósu systir... Svolítið fyndin tímasetning. Alla vega við nutum góðs matar og kaffi í eftirmat og sátum þarna í um tvo tíma. Stemningin á staðnum var eitthvað svo notaleg og afslappandi.

Því næst tókum við strætó heim á gistiheimilið og liggjum nú upp í rúmi í tómri afslöppun. Eina sem setti smá skugga á daginn var að Rebekka var aftur með hita í morgun Frown Hún var voða aum í morgun þegar við hringdum í hana... Vildi bara vera með okkur að leika sér með sitt dót... Ég veit alveg að það er vel hugsað um hana og dekrað við hana en maður veit sjálfur að það er alltaf best að vera hjá mömmu þegar maður er lasinn - meira að segja mér finnst það 32ja ára gamalli... Hringi alltaf í mömmu þegar ég verð veik og væli þar til hún kemur til mín...

Elsku Rebekka okkar:

Æi hvað mamma saknar þín mikið en tíminn líður nú aldeilis hratt og við sjáumst fyrr en varir. Þú ert afskaplega dugleg og ég veit að hjá ömmu og afa færðu nú aldeilis að njóta þín. Ég hlakka mikið til að sjá allar gjafirnar sem þú ert búin að vera að búa til hjá ömmu. Ég veit að það er fúlt að komast ekki út að hjóla með afa eins og þið voruð búin að plana en kannski getur þú gert það um helgina. Ef ekki þá verður pabbi duglegur að koma út með þér að hjóla í næstu viku. Svo eigum við öll saman frí á fimmtudaginn í næstu viku og þið pabbi á föstudaginn. Það verður nóg að gera hjá okkur Heart. Jæja, dúllusnúllan okkar. Við biðjum góðan Guð að passa þig og ömmu og afa og hafið þið það nú öll gott. Biðjum að heilsa kellunum í Hrísalundi...

Ástarkveðja frá mömmu og pabba.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband