19.10.2008 | 08:28
Af lifrapylsugerð, jólahreingerningum og kjötbollum.
Hér á bæ var maður vakinn kl. 7 í morgun, á sunnudegi! Ég reyndi allt sem ég gat til að fá litla orkuboltann til að lúra lengur en nei, þegar maður er vaknaður þá er maður vaknaður... Nú situr hún og horfir á jólamynd!!
Já, við erum farin að hugsa til jóla. Ég byrjaði á föstudaginn að gera eldhúsið hreint og er enn að! Það var nú alveg komin þörf á smá yfirferð þannig að þetta er nú kannski ekkert endilega "jólahreingerning" svona í ljósi þess að nú lætur enginn hanka sig fyrir að gera "jólahreingerningar"...
Í gær fórum við í kaffiboð til mömmu og þar voru öll systkini mín með flesta fylgihlutina. Þegar ég horfði svo á Spaugstofuna í gærkvöldi þá grunaði mig að Spaugstofumenn hafi verið hjá mömmu og stolið bröndurunum sem sagðir voru þar! Ég átti brandarann um hamstrana og Þorgils bróðir átti brandarann um verksmiðjuna í Hafnarfirði og gjaldeyrismálin! Já, við erum ótrúlega skemmtileg fjölskylda, svona fyrir þá sem ekki vita það nú þegar
Síðasta helgi fór í lifrapylsugerð! Já, já maður verður nú að gerast þjóðlegur á þessum krepputímum, ekki satt? Mér finnst reyndar ótrúlega fyndið þegar fólk segir svona því ég hef aldrei orðið "óþjóðleg". Meira að segja á góðæristímanum þá eldaði ég kjötbollur, kjöt í karrý og saltkjöt og baunir! Ég fór aldrei í þennan humar og þistilhjartaham. Ég er kannski bara ekki betri kokkur en það. Ég kann bara það sem mamma mín kenndi mér... Já, unnin kjötvara átti nú ekki upp á pallborðið hjá landanum en ég hef alltaf verið mikill kjötbolluaðdáandi og þær renna ljúflega niður hjá fjölskyldumeðlimum með káli, gulrótum, kartöflum og rófum, þið vitið þessu þjóðlega grænmeti... Og ekki má gleyma Ljóma smjörlíkinu. Nú verður sjálfsagt barist um hvern unninn kjötbita meðan rucolað fær að mygla í búðarhyllunum.
Jæja, nú ætla ég að fara að klára eldhúsið og baka svo nokkrar klessur. Ég á von á vinkonu minni frá Akureyri í dag. Hlakka mikið til.
Lifið heil
Athugasemdir
Sæl Anna mín
Mikið var gaman að hitta þig/ykkur Rebekkan orðin ekkert smá stór og fullorðin, takk kærlega fyrir hlýjar móttökur. Þú skilar svo kærri kveðju til Gústa og Rebekku.
p.s. Arnór hafði líka mjög gaman af að hitta kollega sinn.
Bryndís Dagbjartsdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 12:02
Var að lesa nokkrar skemmtilegar greinar hjá þér. Vildi annars bara segja hæ. Fannst virkilega krúttulegt og findið að lesa um orðaforðann hennar Rebekku.
Bryndís Böðvarsdóttir, 24.10.2008 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.