17.4.2008 | 20:08
Við erum góðu vön...
Í dag fórum við nú aðeins fyrr á fætur en í gær. Ég reyndar vaknaði snemma í morgun við frekar óskemmtilegan atburð en í gær komu gestir í herbergið hér á móti. Í morgun var svo sjónvarpið stillt á fullt og svo farið á fullt ef þið skiljið... Ég lá hér og gróf mig ofan í koddann, með sængina yfir hausnum og reyndi að sofna aftur. Að lokum kom konan uppi (fólkið sem á þetta býr uppi) og bað þau vinsamlegast að lækka í sjónvarpinu... Frekar neyðarlegt.
Við röltum úr á Amagerbrogade í leit að bakaríi til að fá okkur morgunmat. Fyrsta bakaríið sem við fundum bauð upp á reykt rúnstykki og reyktar bollur... Það mátti sem sagt reykja þar inni og maður ætlaði að gubba við að koma þar inn. Við vorum fljót út aftur... Maður er nú góðu vanur að heiman. Í næsta bakaríi voru engin sæti svo við gengum örugglega í klukkutíma þar til við fundum bakarí með sætum. Þar var afgreiðslustúlkan svo upptekin við að vera gelgja að hún gleymdi að gefa okkur til baka... Og svo voru allir sem voru að afgreiða berhentir við að taka brauðin... Úff, aftur er maður góðu vanur að heiman.
Eftir morgunmatinn skiptum við Gústi liði, hann fór í geisladiska- og hljómplötubúð og ég í fatabúð fyrir Rósu systir. Eftir dágóða stund fórum við aftur á gistiheimilið, hringdum í Rósina okkar og heyrðum aðeins í henni hljóðið. Hún var nú mun hressari í dag. Búin að fara í göngutúr með afa í lystigarðinn og á prjónakaffi með ömmu í Hrísalundi. Tíminn líður hratt bæði hjá henni og okkur svo fyrr en varir fáum við að knúsa hana eins og hún vildi í símanum í dag...
Eftir smá afslöppun fórum við aðeins í Fields, ég fór reyndar á undan því Gústi vildi skreppa aftur í geisladiskabúðina. Hann kom svo á eftir mér með fjóra nýja diska í farteksinu. Í Fields fengum við okkur ágætis kvöldmat á American Diner. Ég fékk mér lasagne og Gústi hamborgara. Því næst tókum við lestina niður í bæ, fórum út á Ráðhústorginu og röltum þar um kring. Fórum í tvær minjagripabúðir og erum nú búin að kaupa jólaskrautið (kaupum alltaf eitt skraut á jólatréð þar sem við ferðumst). Eftir smá rölt í viðbót fórum við þreytt heim og erum núna að horfa á lélega bíómynd með Steven Siegal og borða jarðaber með Vanille Creme. Jammi jamm...
Elsku Rósin okkar:
Mikið var gaman að heyra í þér í dag. Ég veit að þú hefur það nú aldeilis gott. Í dag voru mamma og pabbi að labba mikið og eru sko þreytt í fótunum. Ég keypti smá föt fyrir Daníel og Benedikt í dag sem þeir fá þegar við komum heim og handa þér keyptum við Hello Kitty bol og stuttbuxur. Þú verður örugglega ánægð með það. Við erum búin að sjá fullt af flottum húsum hérna í Danmörku og taka nokkrar myndir sem við sýnum þér þegar við komum heim. Vertu dugleg áfram og skemmtu þér vel hjá ömmu og afa. Það styttist í að við hittumst á flugvellinum!
Við elskum þig alveg út í geim! Þín mamma og pabbi.
Athugasemdir
Ef einhver er með hávaða-atlot í næsta herbergi er um að gera að stökkva hvort á annað og sleppa sér. Tilvalið, þar sem það er auðvelt að kenna hinum um ef einhver heyrir!
:)
Ingvar Valgeirsson, 17.4.2008 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.