19.4.2008 | 20:40
Gamlar amerískar bíómyndir í Köben...
Enn einn dagurinn að kveldi kominn og einn og hálfur dagur eftir af fríinu okkar. Hér á efri hæðinni býr greinilega fjörmikil lítil stúlka því í morgun vaknaði ég við hopp, skopp og hlaup. Mér fannst það nú bara vinalegt enda ýmsu vön frá mínum fjörkálfi! Gústi skokkaði út í Kvikly og keypti handa okkur rúnstykki, kókómjólk og jarðaber. Svo lágum við í rúminu og horfðum á ótrúlega væmna og eldgamla ameríska 15 klúta bíómynd með John Ritter. By the way getur einhver sagt mér... er aðalleikarinn í Scrubs nokkuð sonur hans?? Þeir eru alveg eins!
Við drifum okkur á fætur upp úr hádegi og fórum niður í bæ. Við byrjuðum á að fara í H&M og fá Tax refund kvittun. Það er svo fínt að maður getur verslað í hinum og þessum H&M búðum hér og farið svo með allar kvittanir í eina búð og fengið þessa Tax refund kvittun. Eftir það löbbuðum við niður á Nyhavn. Þar settumst við á útiveitingastað, fengum okkur ís og hlustuðum á jazz band spila live. Það var aldeilis notalegt enda veðrið upp á sitt besta! Í dag var sko sól og blíða.
Þessu næst lá leiðin í Tívolíið. Við löbbuðum þar marga hringi og þar fann ég svo sterkt hversu mikið ég sakna Rebekku. Mér fannst eiginlega bara óréttlátt að fara í tívolí án hennar . Við fórum ekki í nein tæki en köstuðum einhverjum pílum, boltum og svoleiðis. Við unnum einn ponsulítinn bangsahaus á lyklakippu...
Um kvöldmat fórum við útúr tívolíinu og á indverskan veitingastað í nágrenninu (Indian Palace). Okkur dauðlangaði aftur í kjúkling í kvöld og fengum okkur af svaka flottu hlaðborði sem þarna var í boði. Okkur fannst maturinn alveg góður en samt ekki eins góður og sá sem við fengum í gær... Alla vega ekki miðað við verðið!!
Svo fórum við aftur í tívolíið og gengum nokkra hringi í viðbót áður en við fórum heim með strætó. Núna liggjum við flöt fyrir framan sjónvarpið og horfum á enn eina lélega ameríska kvikmynd, í þetta sinn með Rob Schneider...
P.s. Ekkert hefur sést (eða heyrst...) til nágrannanna okkar hér á móti í dag...
Hjartans stelpan okkar!
Nú eru mamma og pabbi farin að sakna þín alveg hrikalega mikið! En það er sko bara smástund þar til við hittumst! Leiðinlegt að afi skuli vera búinn að fá flensuna þína. Við vonum að hann verði nú nógu hress til að koma með þér í flugið á mánudaginn. Þú verður að vera góð við hann og hjálpa ömmu að hjúkra honum. Hafðu það nú gott ástin okkar og njóttu þessara síðustu daga hjá afa og ömmu í bili.
Ástarkveðja frá mömmu og pabba
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.