Löng færsla, en ég held hún sé þess virði...

Jæja, þá er maður búinn að borða síðustu kvöldmáltíðina hér í bili. Á morgun er heimferð og hlakka ég rosalega mikið til að sjá hana Rebekku mína.

Við tókum daginn snemma í morgun - NOT- Við fórum ekki á fætur fyrr en um hádegi (sem er svo sem ekkert rosalega seint á íslenskum tíma...) og tókum strætó í Köbenhavns Kristnecenter sem er á Nörrebro. Við vorum um 45 mínútur á leiðinni í glampandi sól svo ég var að steikjast þarna inni. Veðrið var sem sagt mjög gott í dag. Jæja, við löbbuðum í KKC og settumst inn á kaffihús sem er rekið í húsinu (sem reyndar heitir Köbenhavns Kulturcenter). Það var reyndar svolítið fyndið að þegar við vorum að labba að húsinu frá strætóstoppistöðinni þá fór Gústi eitthvað að kannast við sig. Og viti menn, hann gisti í blokk sem er áföst húsinu þegar hann fór ásamt biblíuskólanemunum úr Fíladelfíu til Svíþjóðar og Köben sl. haust!! Hópurinn gisti hjá International Masters Commission í Köben eina nótt áður en þau flugu heim til Íslands.

Við fórum á samkomu kl. 15 hjá International Pentecostal Church og var þar alls konar fólk saman komið til að lofa Guð og heyra hans orð. Áður en samkoman byrjaði kom pastorinn í kirkjunni, Javan Júnior, og heilsaði upp á okkur. Svo byrjaði lofgjörðin og var öll umgjörð látlaus en samt flott. Ég kunni öll lögin nema eitt... Javan talaði svo nokkur orð um "metnað". Hann tók sem dæmi að ef við værum að sækja um vinnu og værum spurð hvar við sæjum okkur sjálf eftir 5 ár, og myndum svara að við vildum vera á sama stað eftir 5 ár þá værum við ekki talin með nógu mikinn metnað. Svo sagði hann að ef við myndum á hinn bóginn svara að við ætluðum okkur forstjórastólinn eftir 5 ár þá værum við talin of metnaðarfull... Pojntið var sem sagt að allir hafa áhyggjur af morgundeginum - það er okkur í blóð borið - EN er ekki allt í lagi að vera á sama stað eftir 5 ár ef maður er sáttur við það (og á kannski bara að vera þar samkvæmt Guðs vilja)? Þurfum við alltaf að vera að eltast við eitthvað eða einhverja og við vitum stundum ekki einu sinni til hvers eða hvers vegna??

Ræðan var í höndum Musikpastorsins í kirkjunni en hún heitir Katrina. Hún var greinilega dálítið stressuð en stóð sig mjög vel og var með frábært orð. Ræðan bar yfirskriftina "All you need is love" og lét hún salinn syngja þetta gamla bítlalag með sér... Ræðan fjallaði um það að skv. orði Guðs eigum við að fara út með fagnaðarerindið en við eigum (mörg hver - og örugglega fleiri en maður heldur) mjög erfitt með það. Við sitjum með vinum og fjölskyldu og í stað þess að tala við þau um Guð tökum við þátt í öðrum samræðum. Katrina talaði um þetta myndrænt og sagði að við værum öðrum megin og annað fólk hinum megin við stórt gap. Þá velti hún upp þeirri staðreynd að við eigum að sýna öllum elsku og við getum fyllt þetta stóra gap með elsku til annars fólks og náð þannig til þeirra. Við getum rétt þeim hjálparhönd, verið betri vinur, sýnt þakklæti eða eitthvað annað sem lætur fólk finna að við elskum það. Þannig gerði Jesús það. Hann læknaði, rétti hjálparhönd og lét fólk finna að hann elskaði það.

Mér finnst þetta frábær lausn fyrir þá sem eru ekki mjög mikið fyrir að tala um trú sína við aðra. Við getum sýnt hana á annan hátt. Ég held að þetta geti leitt til þess að maður verði með tímanum opnari og óhræddari... Nú er bara að taka áskoruninni sem Katrina gaf okkur í lokin...

Eftir samkomuna var frítt kaffi á kaffihúsinu og þar var fullt af fólki sem kom til okkar og spjallaði og þar á meðal nemandi úr MCI biblíuskólanum sem mundi eftir hópnum frá í haust. Svo var líka ein stelpa sem á íslenskan pabba, ein finnsk kona, dönsk hjón og fleiri. Þetta var mjög skemmtilegur eftirmiðdagur.

Nokkrir hlutir fannst mér mjög sniðugt við þessa samkomu. Við innganginn fengum við smá fréttabréf og í því var pláss til að skrifa niður minnisnótur frá samkomunni. Þegar ein mínúta var þar til samkoman byrjaði kom á skjátjaldið niðurtalning í sekúndum þar til samkoman myndi byrja. Þá fóru allir að fá sér sæti. Þegar Javan, Katrina eða aðalsöngkonan voru að biðja þá var þögn í salnum. Það voru ekki allir að keppast við að biðja upphátt, heldur voru bara sammála þeim í bæninni. Líkt og segir að við eigum að gera..... Svo gaf Javan ca. eina mínútu í þögula bæn þar sem við gátum talað við Guð sjálf, innra með okkur. Í fyrirbæninni, í lokin, stilltu fyrirbiðjendurnir sér upp með smá bil á milli sín og gat maður valið hvert maður fór til að láta biðja fyrir sér. Þau gengu ekki til þeirra sem vildu fá fyrirbæn heldur létu fólkið sjálft velja. Þetta myndi ég gjarnan vilja sjá í fleiri kirkjum... Mér hefur alltaf fundist óþægilegt þegar bara einhver gengur upp að mér og spyr "má ég biðja fyrir þér"... Mér finnst asnalegt að segja "nei, ég vil að annar biðji fyrir mér", dahhhh. Þess vegna er ég nánast hætt að fara fram til fyrirbænar þegar ég er á samkomu. Svona er ég bara skrítin...

Við fórum svo á Kebab stað og borðuðum og enduðum daginn á Hard Rock yfir ís og kaffi. Framundan bíður okkar að pakka niður....... eins og það er nú gaman.......

Jæja, þetta er farið að verða ansi löng færsla en vonandi hefur þú lesið til enda...

Jæja, Rósin okkar. Nú er bara ein nótt þar til við komum heim og sækjum þig og afa á flugvöllinn. Það verður algjört æði að hitta þig!! Þú getur svo farið og boðið Grétu Júlíu í heimsókn þegar við komum heim, eins og þú varst búin að biðja um. Sofðu vel í nótt og góða ferð í fluginu á morgun. Knúsaðu nú ömmu og afa rækilega fyrir allt sem þau hafa gert fyrir þig!

Við elskum þig. Þín mamma og pabbi

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ elsku vinir og velkomin heim

Mér þótti gaman að lesa ferðasöguna ykkar og heyra að þið skemmtuð ykkur vel:-) Hlakka til að hitta ykkur sem fyrst!!

Knús, Alís

Alís (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband