27.4.2008 | 20:59
Veisluhöld...
Vikan hefur liðið hjá eins og elding... Tíminn þýtur áfram, enda nóg að gera á litlu heimili . Sumarið gengið í garð og Gústi og Rebekka fóru í skrúðgöngu af því tilefni. Ég var heima með einhverja beinverki. Enda fór að rigna þann dag, fæ oft beinverki þegar það er að byrja að rigna... skil ekki af hverju en ég er bara svona skrítin...
Starfsdagur í Gylfaflöt á föstudaginn. Var sem sagt í vinnunni til að verða 4 í stað hálf 1. En það var svo sem þess virði, tek það út í fríi seinna meir. Gústi var heima með Rebekku því það var líka starfsdagur á leikskólanum. Við skötuhjúin fórum svo í afmælisboð um kvöldið. Rebekka var hjá Siggu ömmu og Steindóri ásamt Ingvari Snæ sætalíusi. Filli átti fertugs afmæli (pabbi Helga Fannars, vinar Rebekku) og voru þar frábærar veitingar líkt og von er frá Sillu og margt skemmtilegt fólk.
Laugardagurinn fór líka í veisluhöld. Fórum fyrst í skírn hjá hálfsystur Gústa. Gaman að hitta föðurfólkið hans alltaf af og til. Vorum að sjá litlu stelpuna (sem hlaut nafnið Sigurást Júlía) í fyrsta skipti og var hún voða snúlla. Um kvöldið fórum við svo í hátíðarkvöldverð hjá kirkjunni okkar Mozaik Hvítasunnukirkju. Þar var mjög gaman enda fullt af Akureyringum og skemmtilegum vinum. Svo var heimasíða kirkjunnar opnuð formlega og má kíkja á hana á www.mozaik.is Rebekka var hjá Rósu á meðan en svo þegar leið á kvöldið fór hún heim ásamt Benedikt sem svæfði hana (ótrúlega duglegur strákur) og horfði hann svo á Indiana Jones þar til við komum heim rétt fyrir miðnætti.
Í dag átti Gústinn minn afmæli. Hann varð 37 ára. Af því tilefni fórum við upp í sumarbústað og buðum fjölskyldum okkar í kaffi. Þangað mættu mamma og Steindór, Þorgils og Erna, Óli og Addý, pabbi var í bústaðnum fyrir... og svo komu Bryndís, Haukur og Rakel. Við áttum mjög skemmtilegan dag og leist öllum vel á bústaðinn þrátt fyrir að það eigi eftir að gera ýmislegt. "Hann lofar góðu" voru allir sammála um. Á leiðinni í bæinn sofnaði Rósin okkar og var hún bara borin í rúmið enda klukkan að verða átta.
Ný vinnuvika framundan en ég hlakka nú til fimmtudagsins. Alltaf gaman að fá svona auka frídaga. Gústi fer norður á þriðjudaginn í útför Boga. Hann flýgur beint í morgunkaffi til mömmu sinnar og svo aftur heim um kvöldið. Segi þetta gott í bili.
Athugasemdir
Takk fyrir síðast.
Heyrðu, þetta með beinverkina hljómar nú meira eins og gigt...
Bryndís Böðvarsdóttir, 1.5.2008 kl. 23:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.