Við erum góðu vön...

Í dag fórum við nú aðeins fyrr á fætur en í gær. Ég reyndar vaknaði snemma í morgun við frekar óskemmtilegan atburð en í gær komu gestir í herbergið hér á móti. Í morgun var svo sjónvarpið stillt á fullt og svo farið á fullt ef þið skiljið... Ég lá hér og gróf mig ofan í koddann, með sængina yfir hausnum og reyndi að sofna aftur. Að lokum kom konan uppi (fólkið sem á þetta býr uppi) og bað þau vinsamlegast að lækka í sjónvarpinu... Frekar neyðarlegt.

Við röltum úr á Amagerbrogade í leit að bakaríi til að fá okkur morgunmat. Fyrsta bakaríið sem við fundum bauð upp á reykt rúnstykki og reyktar bollur... Það mátti sem sagt reykja þar inni og maður ætlaði að gubba við að koma þar inn. Við vorum fljót út aftur... Maður er nú góðu vanur að heiman. Í næsta bakaríi voru engin sæti svo við gengum örugglega í klukkutíma þar til við fundum bakarí með sætum. Þar var afgreiðslustúlkan svo upptekin við að vera gelgja að hún gleymdi að gefa okkur til baka... Og svo voru allir sem voru að afgreiða berhentir við að taka brauðin... Úff, aftur er maður góðu vanur að heiman.

Eftir morgunmatinn skiptum við Gústi liði, hann fór í geisladiska- og hljómplötubúð og ég í fatabúð fyrir Rósu systir. Eftir dágóða stund fórum við aftur á gistiheimilið, hringdum í Rósina okkar og heyrðum aðeins í henni hljóðið. Hún var nú mun hressari í dag. Búin að fara í göngutúr með afa í lystigarðinn og á prjónakaffi með ömmu í Hrísalundi. Tíminn líður hratt bæði hjá henni og okkur svo fyrr en varir fáum við að knúsa hana eins og hún vildi í símanum í dag...

Eftir smá afslöppun fórum við aðeins í Fields, ég fór reyndar á undan því Gústi vildi skreppa aftur í geisladiskabúðina. Hann kom svo á eftir mér með fjóra nýja diska í farteksinu. Í Fields fengum við okkur ágætis kvöldmat á American Diner. Ég fékk mér lasagne og Gústi hamborgara. Því næst tókum við lestina niður í bæ, fórum út á Ráðhústorginu og röltum þar um kring. Fórum í tvær minjagripabúðir og erum nú búin að kaupa jólaskrautið (kaupum alltaf eitt skraut á jólatréð þar sem við ferðumst). Eftir smá rölt í viðbót fórum við þreytt heim og erum núna að horfa á lélega bíómynd með Steven Siegal og borða jarðaber með Vanille Creme. Jammi jamm...

Elsku Rósin okkar:

Mikið var gaman að heyra í þér í dag. Ég veit að þú hefur það nú aldeilis gott. Í dag voru mamma og pabbi að labba mikið og eru sko þreytt í fótunum. Ég keypti smá föt fyrir Daníel og Benedikt í dag sem þeir fá þegar við komum heim og handa þér keyptum við Hello Kitty bol og stuttbuxur. Þú verður örugglega ánægð með það. Við erum búin að sjá fullt af flottum húsum hérna í Danmörku og taka nokkrar myndir sem við sýnum þér þegar við komum heim. Vertu dugleg áfram og skemmtu þér vel hjá ömmu og afa. Það styttist í að við hittumst á flugvellinum!

Við elskum þig alveg út í geim! Þín mamma og pabbi.

 


Mama Rosa, Rósa og rosa notalegur dagur!

Jæja, nú er dagur tvö í Köben að kveldi kominn og við vorum að koma inn úr dyrunum. Kl. að verða miðnætti á dönskum tíma. Í dag var stóri hvíldardagurinn hjá okkur!! Við vöknuðum, sofnuðum, vöknuðum, lúrðum, lásum, sofnuðum, vöknuðum alveg til kl. 15 að staðartíma (13 á ísl. tíma). Vá hvað það var yndislegt...

Við drösluðumst í sturtu og skruppum svo í Fields, sem á að vera stærsta verslunarmiðstöð í Skandinavíu. Þar fengum við okkur "morgunmat" í Bagel kompaniet. Svo tók við smá verslunarhrina. Það var sko rigning úti í dag svo okkur fannst allt í lagi að versla smá, þó svo þetta hafi nú ekki átt að vera verslunarferð. Gústi er að verða alvöru tískugúru... Hann er búinn að kaupa meira af fötum en ég... Alveg tvennt, meðan ég er búin að kaupa mér eina peysu Joyful.

Við tókum svo lestina í miðbæinn. Það var farið að rökkva og við gengum niður að Nyhavn. Voða rómó í kvöldhúminu... Svo gengum við upp á Strikið og settumst inn á stað sem heitir Mama Rosa. Ég hef borðað þar einu sinni áður og mundi að þar eru æðislegar pizzur. Á meðan við vorum á Mama Rosa fékk ég sms frá Rósu systir... Svolítið fyndin tímasetning. Alla vega við nutum góðs matar og kaffi í eftirmat og sátum þarna í um tvo tíma. Stemningin á staðnum var eitthvað svo notaleg og afslappandi.

Því næst tókum við strætó heim á gistiheimilið og liggjum nú upp í rúmi í tómri afslöppun. Eina sem setti smá skugga á daginn var að Rebekka var aftur með hita í morgun Frown Hún var voða aum í morgun þegar við hringdum í hana... Vildi bara vera með okkur að leika sér með sitt dót... Ég veit alveg að það er vel hugsað um hana og dekrað við hana en maður veit sjálfur að það er alltaf best að vera hjá mömmu þegar maður er lasinn - meira að segja mér finnst það 32ja ára gamalli... Hringi alltaf í mömmu þegar ég verð veik og væli þar til hún kemur til mín...

Elsku Rebekka okkar:

Æi hvað mamma saknar þín mikið en tíminn líður nú aldeilis hratt og við sjáumst fyrr en varir. Þú ert afskaplega dugleg og ég veit að hjá ömmu og afa færðu nú aldeilis að njóta þín. Ég hlakka mikið til að sjá allar gjafirnar sem þú ert búin að vera að búa til hjá ömmu. Ég veit að það er fúlt að komast ekki út að hjóla með afa eins og þið voruð búin að plana en kannski getur þú gert það um helgina. Ef ekki þá verður pabbi duglegur að koma út með þér að hjóla í næstu viku. Svo eigum við öll saman frí á fimmtudaginn í næstu viku og þið pabbi á föstudaginn. Það verður nóg að gera hjá okkur Heart. Jæja, dúllusnúllan okkar. Við biðjum góðan Guð að passa þig og ömmu og afa og hafið þið það nú öll gott. Biðjum að heilsa kellunum í Hrísalundi...

Ástarkveðja frá mömmu og pabba.


Glimmersprey, blöðrur og lífshætta!

Það var eldsnemma í morgun sem við nudduðum stírur úr augum, sturtuðum okkur og fórum í morgunverð á Icelandair Flughóteli í Keflavík. Ok, morgunverðurinn var ekki neitt til að hrópa húrra yfir en dugði þó til að koma okkur sem leið lá í flugstöðina. Þar geymum við bílinn og verður hann þrifinn hátt og lágt á meðan við erum í fríi. Það er nú smá lúxus sem við vorum búin að ákveða fyrir löngu síðan að veita okkur...

Við komumst skammlaust í gegnum innritunina og tollinn... Ég saknaði reyndar heklunálarinnar sem varð að fara með í innritaðan farangur. Við skoðuðum okkur um í flugstöðinni enda margt breytt síðan síðast. Kl. 7 vorum við komin um borð í vélina og svo var lagt í´ann kl. 7:15. Ég steinsofnaði fljótlega og vaknaði klukkutíma seinna bara til að færa mig. Þar sem vélin var alls ekki full gat ég farið í þrjú sæti og lagst fyrir Smile. Mér fannst það fínt fyrir utan að vakna með koddafar á kinninni... Við lentum í Köbenhavn kl. 12:10 að staðartíma. Þá tók við smá upplýsingaleit og á endanum tókum við leigubíl að gistiheimilinu þar sem við erum. Það er ósköp látlaust en kósí og mikill kostur að hér er þráðlaust netsamband...

Eftir að hafa hent af okkur farangri skruppum við í göngutúr... Hann varði reyndar í 6 klukkutíma! Tveimur götum frá gistiheimilinu er stór verslunargata sem heitir Amagerbrogade. Hana gengum við langleiðina að miðbænum og kíktum í nokkrar skemmtilegar búðir. Það var á þessari götu sem við lentum í lífshættu í dag og vorum næstum keyrð niður af........hjólreiðabrjálæðingum. Ok, við stóðum reyndar út á miðjum hjólreiðastíg (við hliðina á gangstéttinni) en hvers má vænta af saklausum íslendingum?? Við stukkum fimlega upp á gangstéttina og rétt náðum að bjarga okkur frá því að verða hjólreiðamönnum að bráð...

Að lokum hoppuðum við upp í strætó og tókum hann að Ráðhústorginu. Um borð var gömul kona sem bablaði við okkur á nánast óskiljanlegri ensku. Hún heyrði að við vorum að ræða um tívolíið og lagði saman tvo og tvo og sagði okkur að fara út á sama stað og hún. Svo gerðist hún persónulegur gæd fyrir okkur og lýsti því sem mátti sjá á leiðinni í strætónum. Í staðinn urðum við að hjálpa henni út úr stætó og bera hellings farangur fyrir hana! Við báðum ekki um þetta...

Við tók Strikið. Við röltum þar í um þrjá tíma með viðkomu á Manhattan pizzeria og H&M... Þar keyptum við langþráð glimmersprey sem Rebekka spyr um í hvert sinn sem ég heyri í henni... Við keyptum líka ýmislegt handa ungfrúnni og tvær afmælisgjafir. Ég var mest ánægð með vetrarúlpuna sem ég fékk á 70% afslætti. Hér kemur nefnilega sumar Cool en það er alltaf viss óvissa heima með sumarið...

Við vorum komin heim á gistiheimilið um hálf 8 og þá var Gústi kominn með blöðrur á tvær tær og ég orðin aum í iljunum.... Við lögðumst upp í rúm eins og gamlingjar og erum þar enn. Ég búin að sofa í allt kvöld og Gústi í sudoku. Svaka spennandi... Sjónvarpsrásirnar tvær hafa ekki einu sinni náð að fanga okkur... Auglýsingarnar virðast vera mest spennandi...

Til Rebekku:

Jæja, Rósin okkar. Nú eru mamma og pabbi komin til Danmerkur og það var svo gott að heyra í morgun að þú værir orðin hitalaus. Ég hlakka til að heyra í þér í fyrramálið! Er ekki búið að vera svaka gaman hjá afa og ömmu? Það er ég viss um. Við erum búin að kaupa glimmerspreyið handa þér og ný sundföt!! Þú verður nú aldeilis flott með þetta. Þú ert svo dugleg stelpa og við elskum þig! Heyrumst á morgun, ljósið okkar.

Kveðja mamma og pabbi


Gylltir þræðir, gersemin okkar.

Jæja, þá er komið að því. Við komin til Reykjavíkur og litla rósin okkar hjá ömmu og afa á Akureyri. Mikið var nú erfitt að kveðja hana. Hún grét og kallaði á okkur og ég grét langleiðina upp á Öxnadalsheiði... Týpíst ég... Við vorum búnar að tala mikið saman um það að nú ætlaði hún að vera ein í nokkra daga hjá afa og ömmu og við pabbi ætluðum til Danmerkur á meðan. Hún var alveg sátt við þetta allt saman og mjög spennt að vera á Akureyri í nokkra daga, þangað til....... að hún vaknaði sl. nótt með 39° hita! Þá var nú mín ansi meyr og vildi bara vera hjá okkur, sem hún elskar alveg upp í geim! Já, það gerði það nú erfiðara fyrir móður með aðskilnaðarkvíða að skilja barnið eftir lasið... Þó svo ég viti alveg að hún er í góðum höndum og vel er um hana hugsað.

En svona er nú það. Við keyrðum sem leið lá suður á bóginn, stoppuðum í sumarbústaðnum okkar í Ölver og þar var pabbi búinn að grilla læri handa okkur, nammi namm. Fengum læri í gær líka, hjá tengdó svo þetta er búin að vera algjör gúrmei helgi! Brynjuísinn var á sínum stað fyrir norðan og rúnturinn líka... Heimsóttum engan í þessum túr, vorum bara í Vanabyggðinni að anda að okkur Rebekkunni okkar. Í nótt þegar hún var loksins sofnuð aftur lágum við Gústi, horfðum á hana í ljósinu frá lampanum og sáum hvernig gulllituð slikja var yfir hárinu á henni. Hún er svo falleg! Ég var varla komin inn úr dyrunum áðan en ég var búin að hringja í hana. Amma var að lesa Leikhús Barbapabba fyrir hana og hún bara sátt við lífið. Bíður í ofvæni eftir glimmerspreyinu sem við lofuðum að kaupa í Köben...

Annars af Köben ferðinni. Við leggjum í´ann annað kvöld, gistum á Flughótel Keflavík og fljúgum svo út eldsnemma á þriðjudagsmorguninn. Við gistum á gistiheimili á Amager sem íslendingar reka og sýnist okkur á heimasíðunni þeirra að þetta sé ágætis gistihús. Pabbi ætlar að líta eftir íbúðinni okkar á meðan. En nú er kominn tími til að fara í háttinn, vinna á morgun og svo pakka niður!

 Heart

Til Rebekku Rósar okkar: elsku hjartans yndið okkar. Við elskum þig líka alveg út í geim. Þú ert svo dugleg að passa ömmu og afa á meðan við erum í Danmörku. Við vitum að þú átt eftir að gera svo margt skemmtilegt á Akureyri og tíminn líður svo hratt. Mamma og pabbi eru líka að reyna að vera rosa dugleg meðan þú ert ekki hjá okkur og við erum öll orðin svo stór að þetta gengur allt vel Grin

Við elskum þig Heart Kveðja mamma og pabbi.


Ég hljóp 1. apríl BIG TIME!!

Já, ég játa það alveg! Ég trúði því að stýrikerfi barnalandssíðanna yrðu hér eftir á dönsku. Ástæðan fyrir því að ég neitaði að trúa að þetta væri aprílgabb er sú að ég vildi alls ekki trúa því að Frontur legði pening og tíma í að þýða þetta allt saman bara fyrir einn dag... En svona er fólk tilbúið að gera til að aular eins og ég geri mig að fífli opinberlega... No hard feelings en vogið ykkur ekki að hækka áskriftargjaldið til að mæta kostnaði á borð við þennan!!

Því miður satt.

Því miður virðist þessi frétt vera sönn. Opnaði síðu dóttur minnar í morgun og á móti mér tók "gæstebog" og annað hrognamál... Allt stýrikerfið komið á dönsku svo nú er bara að reyna að muna hvað var hvar...
mbl.is Notendaviðmót Barnalands á dönsku til hagræðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutabréf, mótmæli og lagningar...

Jæja, þá er nú enn ein helgin á enda og fríið búið í bili. Við erum nú búin að hafa það aldeilis fínt um helgina, líkt og alltaf... Eftir vinnu á föstudaginn fór ég í allri umferðakaosinni niður í Ármúla með ferðaávísun sem ég þurfti að skila til Mastercard vegna Köben ferðarinnar sem óðum styttist í. Ég var nú ekkert svo lengi á leiðinni en það tók aðeins lengri tíma en venjulega... Annars finnst mér fínt að einhverjir séu tilbúnir til að standa upp fyrir okkur hin (sem látum bjóða okkur hvað sem er) og mótmæla þessu fáránlega verðlagi í þessu landi hér... Ég lenti í nákvæmlega eins dæmi í Oslo árið 1999 eða 2000 og þá lagði ég bara bílnum á hraðbrautinni milli Bærum og Oslo og lagði mig í tvo tíma! Það var nú ósköp notalegt en ég var auðvitað tveimur tímum of sein til að opna Hertz skrifstofuna á Sentralstasjon þann daginn...

Þegar heim kom á föstudaginn lagðist ég yfir sjónvarpsefni frá fimmtudagskvöldinu og horfði á Bræður og systur, Klovn og Anna Pihl í einum rykk! Gústi og Rebekka fóru í sund og ég reyndi að myndast við að þrífa eitthvað en nennti því ekki og lagði mig bara... Algjör letidagur sem sagt!

Laugardagurinn var álíka mikill letidagur. Gústi og Rebekka fóru í íþróttaskólann (by the way nýjar myndir á síðunni hennar Rebekku) og ég fór að þrífa. Um tvö leitið skruppum við svo í opið hús hjá Biblíuskólanum og var voða notalegt að koma þar. Þetta er biblíuskólinn sem Gústi fór með til Svíþjóðar sl. haust svo það tóku allir voða vel á móti okkur. Fengum okkur vöfflur og meððí og svo rölti ég aðeins yfir í næstu götu til Óla bró og Addýjar. Gústi og Rebekka komu svo seinna og stoppuðum við smástund þar. Því næst fór Gústi í stúdíóið að vinna og Rebekka spurði eftir Grétu vinkonu sinni. Hún fór með þeirri fjölskyldu í göngutúr (þær voru svo miklar dúllur, báðar með dúkkuvagna í hávaðaroki) og kom ekki heim fyrr en um 20:30. Þetta var algjör lúxus fyrir mig... nema hvað ég notaði tækifærið og kláraði að þrífa... Við mæðgur dúlluðum okkar svo eitthvað fram eftir og fórum ekki að sofa fyrr en um 22 leitið... Algjört kæruleysi í gangi.

Sunnudagurinn hófst á þessu heimili kl 8 og var ég dregin fram úr með stýrurnar í augunum... Við horfðum eina umferð á Pöddulíf og fórum svo að perla... Gústi fór svo með Rebekku í sunnudagaskólann en ég lagði mig því ég var að drepast úr mánaðarlegum kvennaverkjum... Eftirmiðdagurinn fór í skattaskýrslugerð fyrir okkur og mömmu og var ég orðin alveg ferköntuð í augunum um kvöldmat en þá var ég búin að eyða nokkrum klukkutímum í hlutabréfavesen... Þessi blessuð félög eru alltaf að sameinast, skipta sér, hætta, sameinast aftur... En ég held ég sé nú komin með þetta nokkuð seif eftir samtal við vin okkar Þóri hjá PWC... Hann er algjör bjargvættur! Náði nefnilega ekki í tengdapabba skattmann, nei Frímann Wink því hann var einhvers staðar upp á fjöllum í göngutúr... Gústi þurfti að vera á samkomunni í Fíló í dag og tók Rebekku með sér og var hún í barnastarfinu. Gústi var að taka upp... Við vorum svo boðin í grill hjá mömmu og Steindóri og ummmmm ljúffengt lamb. Þegar heim kom kláraði ég rekstrarreikninginn fyrir Gústa, setti nýjar myndir inn hjá Rebekku og skrifaði þessa líka löngu færslu!

En núna hætti ég - Adjos


Krúttlegir skór

Eins og ég hef sagt ykkur erum við í Gylfaflötinni að fara í námsferð til Glasgow í október. Við erum að sjálfsögðu á fullu að safna fyrir ferðinni og erum með ýmislegt í gangi.

Mig langar að kynna fyrir ykkur krúttlegustu skó í heimi!! Kíkjið á heimasíðuna sem ég setti upp fyrir okkur í gær og sjáið skóna sem við erum að sauma. Þeir eru hrikalega flottir og frábærir á lítil börn. Góðir í vagninn, sumarbústaðinn, í bílstólinn og bara til að hafa á litlum fótum....

www.kruttlegirskor.barnaland.is

 

Þetta má alveg berast Cool


Páskar.

Gleðilega páska!

jesus_480


Gubb, gengi og páskar...

Sara mín, mikið er ég nú fegin að við skildum vera búin að ákveða að vera heima um páskana... Við mæðgur erum nefnilega búnar að vera með gubbupest sl. daga!! Svaka fjör hjá okkur, eða þannig. Í dag er svo hvíldardagur... Ég ætla að vera heima frá vinnu og leyfa Rebekkunni minni að vera heima líka því maður er nú ansi slappur eftir svona pest... Annars er nú ykkar plan flott og hvernig væri nú að deila hvort kynið barnið nú er............. Hlakka til að hitta ykkur á sunnudaginn á stofnsamkomunni.!

Fyrir utan gubb er allt gott að frétta af okkur familíunni. Gengisfallið er smá vonbrigði í sambandi við Köbenferðina okkar en gengið hefur mánuð til að rétta sig aðeins af áður en við förum út... Koma svo!! Við ætlum nú ekki að láta þetta hafa áhrif á tilhlökkunina því þetta á nú ekki að vera nein verslunarferð, heldur afslöppunar-, kaffihúsa-, skoðunarferða-, leti- og bara allt annað ferð en verslunarferð. Skreppum kannski yfir til Sverige til að versla þar sem SEK er aðeins ódýrari enn sem komið er...

Páskar framundan, ein fermingarveisla, samkoma og einhverjar heimsóknir ef heilsan leyfir. Ætlum líka upp í bústað að reyna að taka aðeins til hendinni. Erum líka að spá í að fara með rúmin uppeftir svo við getum nú farið að sofa í sveitasælunni. Veit um eina fröken sem yrði himinlifandi!!

Rebekka er alltaf að æfa sig á hljómborðið sitt. Henni finnst það mjög gaman og er farin að spila í stað þess að slá á nóturnar... Svo er hún farin að prófa sig áfram með alla takkana... velja sér hljóm og svoleiðis Smile Hún er svo yndisleg þessi elska. Vildi alveg eiga margar útgáfur af henni!! Væri reyndar líka alveg til í nokkrar útgáfur af pabba hennar... Einn til að hafa heima, einn til að vinna í stúdíóinu, einn til að vinna í ruslinu.... Gústi er með verkefni í gangi í stúdíóinu og þá er hann oft að heiman fram á nótt... frekar einmanalegt að lúra einn í stóru hjónarúmi... en Rebekka er nú dugleg að koma yfir og kúrast uppí...

Jæja, ætla að bjóða fröken að baka með mér eitthvert gúmmelaði og reyna svo að lokka einhverja í kaffi til okkar í dag svo við myglum nú ekki alveg... Allir velkomnir sem eru BÚNIR að vera með gubbuna...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband