Hvað er verið að væla?...

Ísland varð í fjórða sæti í Júró!! Já, ég tek ekkert annað í mál! Sko ef við skoðum úrslitin þá var listinn svona:

Júró

En ef við tökum út austur-evrópu löndin þá sjáum við að listinn liti svona út:

1. Noregur

2. Ísrael (já, já leyfum þeim að fljóta með)

3. Portúgal

4. Ísland!!!

Mér finnst þetta miklu sanngjarnari úrslit og lítur miklu betur út fyrir okkur.

Allir að fjölmenna til Oslo á næsta ári!! (Svona til að gefa rússum langt nef)

Svo má líka setja þetta þannig upp að ef öll þessi austur-evrópu lönd gætu nú lifað í sátt og samlyndi og væru enn undir sama hatti þá litu úrslitin einhvern veginn svona út:

1. Sovétríkin

2. Grikkland

3. Noregur

4. Júgóslavía

5. Tyrkland

6. Ísrael

7. Portúgal

8. Ísland!

Strax aðeins skárra...

Bara smá pæling - ekkert tapsár...


mbl.is Íslenska lagið átti betra skilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er verið að væla?!

Ísland varð í fjórða sæti í Júró!! Já, ég tek ekkert annað í mál! Sko ef við skoðum úrslitin þá var listinn svona:

Júró

En ef við tökum út austur-evrópu löndin þá sjáum við að listinn liti svona út:

1. Noregur

2. Ísrael (já, já leyfum þeim að fljóta með)

3. Portúgal

4. Ísland!!!

Mér finnst þetta miklu sanngjarnari úrslit og lítur miklu betur út fyrir okkur.

Allir að fjölmenna til Oslo á næsta ári!! (Svona til að gefa rússum langt nef)

Svo má líka setja þetta þannig upp að ef öll þessi austur-evrópu lönd gætu nú lifað í sátt og samlyndi og væru enn undir sama hatti þá litu úrslitin einhvern veginn svona út:

1. Sovétríkin

2. Grikkland

3. Noregur

4. Júgóslavía

5. Tyrkland

6. Ísrael

7. Portúgal

8. Ísland!

Strax aðeins skárra...

Bara smá pæling - ekkert tapsár...


Tölvufráhvörf og Melodi Grand Prix!

Fartölvan mín er ennþá í viðgerð. Átti að taka tvo daga en þeir eru nú ekki búnir að hringja ennþá... En Gústi minn lánar mér viðhaldið sitt af og til Tounge. Ég varð eiginlega bara að skrifa smá hérna núna því ég er svo hrikalega glöð yfir JÚRó!!

Stemningin hér hjá okkur í gærkvöldi minnti mig á stemninguna heima hjá mér í Norge 1999. Sama fólkið í heimsókn, pizza í gærkvöldi en lasagne 1999... Í þá daga kunni ég eiginlega bara að elda lasagne og Grandiosa ha/ha.

Kaus annars Danmörku og Albaníu. Verðum pottþétt í einu af efstu sætunum!! Hlakka ekkert smá til annað kvöld.


Beeelað!

Fartölvan mín er biluð Frown Fer í hreinsun hjá Friðriki Skúlasyni í þessari viku og verður þar í nokkra daga. Ég kem til með að sakna hennar... en hér mun lítið gerast á meðan...

Þar til næst.

Njótið veðurblíðunnar.


Feðginin troða upp...

Ýmislegt hefur á daga fjölskyldunnar drifið síðan síðast og stendur þar upp úr Opna húsið á leikskólanum hennar Rebekku þar sem hún söng, ásamt vinum sínum fyrir gesti. Sú var nú montin með frammistöðuna enda verð ég að segja að börnin komu mér verulega á óvart því það heyrðist í þeim... Oft á tíðum ætla þessi grey að hverfa úr feimni á svona stundum en þessi börn voru frábær! Ég er ekkert hlutdræg..... Tounge

Við skruppum svo upp í bústað um helgina. Loksins farið í smá vinnuferð. Við færðum til í kjallaranum og bárum timbur fram og til baka, út og inn... Nú er bara að panta steypubílinn og klára að steypa í gólfið... Þessu næst verður farið í að ganga frá rotþrónni og svo verður farið í þakskegg og svo í lagfæringu á stafni, því næst farið í pallagerð og kartöflugarðagerð og svo í að mála og svo og svo og svo... Já, þetta er heilmikil vinna en ógeðslega gaman!! Rebekka nýtur sín í botn í bústaðnum, alltaf eitthvað að brasa. Hún fær að byggja dúkkukofa í sumar... sú verður nú glöð með það...

Á sunnudaginn fórum við í strætóferð með Rebekku og vin hennar Helga Fannar. Það er svaka sport að fara í strætó svo við tókum hvorki meira né minna en fjóra strætóa... Við komum aðeins við í Kolaportinu þar sem við fengum okkur smá snæðing, annars vorum við bara á rúntinum. Um kvöldið fórum við svo í fermingarveislu hjá vinafólki okkar. Gústi spilaði tvö lög fyrir veislugesti og var þetta barasta notalegt kvöld. Maturinn var æði!! Ummm langar í lambið núna...

Sem sagt, allt gott að frétta af okkur. Gústi ýmist að keyra eða trilla. Nóg um að vera í vinnunni hjá mér og Rebekka alltaf jafn ánægð á Maríuborg. Við vorum að heyra í dag að hún á að skipta um deild í haust (aftur...) og fara á "stóru krakka" deildina. Mig langar ekkert að missa fóstrurnar sem hún er með núna en ég held þær séu nú líka fínar á hinni deildinni. Maður hefur aðeins kynnst þeim og þær eru voða hressar og alla vega mjög duglegar að vera úti með börnin. Ég var ekki alveg viss um hvað mér ætti að finnast um að krakkarnir þyrftu að skipta um deild á hverju ári en það er sjálfsagt einhver þröngsýni í mér... Kenni mínu uppeldi um... Ég bjó alltaf á sama stað, í sama húsi, var í sama skóla, átti sömu vini o.s.frv. alveg þar til ég var 15 ára að ég fór í nýjan skóla... En það gerði mér ótrúlega gott að skipta um umhverfi því ég var orðin eins og gamall sauður ha/ha.

Jæja, allir sofnaðir hér nema ég svo það er kominn tími á gömluna líka.


Veisluhöld...

Vikan hefur liðið hjá eins og elding... Tíminn þýtur áfram, enda nóg að gera á litlu heimili Joyful. Sumarið gengið í garð og Gústi og Rebekka fóru í skrúðgöngu af því tilefni. Ég var heima með einhverja beinverki. Enda fór að rigna þann dag, fæ oft beinverki þegar það er að byrja að rigna... skil ekki af hverju en ég er bara svona skrítin...

Starfsdagur í Gylfaflöt á föstudaginn. Var sem sagt í vinnunni til að verða 4 í stað hálf 1. En það var svo sem þess virði, tek það út í fríi seinna meir. Gústi var heima með Rebekku því það var líka starfsdagur á leikskólanum. Við skötuhjúin fórum svo í afmælisboð um kvöldið. Rebekka var hjá Siggu ömmu og Steindóri ásamt Ingvari Snæ sætalíusi. Filli átti fertugs afmæli (pabbi Helga Fannars, vinar Rebekku) og voru þar frábærar veitingar líkt og von er frá Sillu og margt skemmtilegt fólk.

Laugardagurinn fór líka í veisluhöld. Fórum fyrst í skírn hjá hálfsystur Gústa. Gaman að hitta föðurfólkið hans alltaf af og til. Vorum að sjá litlu stelpuna (sem hlaut nafnið Sigurást Júlía) í fyrsta skipti og var hún voða snúlla. Um kvöldið fórum við svo í hátíðarkvöldverð hjá kirkjunni okkar Mozaik Hvítasunnukirkju. Þar var mjög gaman enda fullt af Akureyringum og skemmtilegum vinum. Svo var heimasíða kirkjunnar opnuð formlega og má kíkja á hana á www.mozaik.is  Rebekka var hjá Rósu á meðan en svo þegar leið á kvöldið fór hún heim ásamt Benedikt sem svæfði hana (ótrúlega duglegur strákur) og horfði hann svo á Indiana Jones þar til við komum heim rétt fyrir miðnætti.

Í dag átti Gústinn minn afmæli. Hann varð 37 ára. Af því tilefni fórum við upp í sumarbústað og buðum fjölskyldum okkar í kaffi. Þangað mættu mamma og Steindór, Þorgils og Erna, Óli og Addý, pabbi var í bústaðnum fyrir... og svo komu Bryndís, Haukur og Rakel. Við áttum mjög skemmtilegan dag og leist öllum vel á bústaðinn þrátt fyrir að það eigi eftir að gera ýmislegt. "Hann lofar góðu" voru allir sammála um. Á leiðinni í bæinn sofnaði Rósin okkar og var hún bara borin í rúmið enda klukkan að verða átta.

Ný vinnuvika framundan en ég hlakka nú til fimmtudagsins. Alltaf gaman að fá svona auka frídaga. Gústi fer norður á þriðjudaginn í útför Boga. Hann flýgur beint í morgunkaffi til mömmu sinnar og svo aftur heim um kvöldið. Segi þetta gott í bili.

 


Ferðalok!

Jæja, nú er maður lentur í borginni og farinn að vinna. Tíminn líður svo hratt og ég hef ekki gefið mér tíma til að skrifa lok ferðasögunnar miklu. Svo nú ætla ég að nota matarhléið mitt til þess...

Við vöknuðum kl. 9 á mánudagsmorguninn, fórum í sturtu og kláruðum að pakka niður. Svo löbbuðum við yfir á Amagerbrogade og ég skrapp í Kvikly eftir morgunmat meðan Gústi naut veðurblíðunnar með allan farangurinn úti. Svo fórum við með strætó út á flugvöll, það tók nú ekki nema um 10 mínútur. Þar sem almenningssamgangnamiðarnir okkar giltu út daginn fannst mér ómögulegt bara að henda þeim svo við löbbuðum fram hjá Dsb miðakontornum og fundum í röðinni eldra fólk sem við gáfum miðana. Þau voru ósköp glöð og okkur fannst mjög gaman að gleðja með svona lítilræði (lesið síðustu færslu með þetta í huga...).

Jæja, við tók Tax Refund kontorinn og þar fengum við alla innkauparmiðana okkar stimplaða og konan sagði að það væri nú alveg týpískt að fólk væri alltaf með fullar töskur af barnafötum... Mikið rétt í okkar tilfelli Grin. Svo fórum við í röðina til að tjekka okkur inn og gekk það nú bara nokkuð hratt. Svo fórum við í gegnum öryggisskoðunina og fékk ég líkamsskoðun í fyrsta skipti á ævinni. Það bíbbaði eitthvað þegar ég gekk í gegnum öryggishliðið svo kona með hvíta hanska bað mig að stíga upp á skemil og svo leitaði hún á mér. Ég upplifði þetta ekki sem neitt niðurlægjandi eða persónulegt og var í raun bara þakklát fyrir hversu vel þetta fólk vinnur vinnuna sína.

Jæja, við tók að fá Tax peningana borgaða til baka og gekk það og svo tók við að eyða þeim.... í fríhöfninni... Það gekk nú hálf brösuglega að eyða þeim, keyptum bara einn geisladisk (alveg frábæran með Amy McDonald) og smá nammi...

Svo var bara fljótlega farið um borð og flogið heim til Íslands þar sem við eyddum smá pening í fríhöfninni og skokkuðum glöð fram hjá tollvörðunum og hundi sem snusaði af okkur (enda ekkert grunsamlegt hjá okkur....). Því næst náðum við í bílinn úr þrifmeðferðinni og er hann þvílíkt glansandi fínn núna!

Það var nú ósköp notalegt að koma heim í heiðardalinn. Við vorum bara smá stund heima því svo þurftum við að fara út á flugvöll og sækja prinsessuna og afann úr fluginu frá Akureyri. Sú stutta var nú glöð að hitta foreldrana og mamman ósköp fegin að geta knúsað hana! En það rifjaðist fljótlega upp fyrir mér af hverju við lögðum í þessa ferð bara tvö hjónakornin Joyful því sú stutta var fljót að reyna að taka völdin á heimilinu...

Við fengum rosalega fallegar gjafir frá stuttu sem hún bjó til fyrir norðan og príða þær nú hillu í stofunni. Sú stutta fékk líka ýmsar gjafir en það skipti eiginlega meira máli að fá Grétu Júlíu í heimsókn en að skoða þær... Gréta fékk að kíkja í smá og fékk hún líka gjöf frá Rósinni.

Jæja, um kvöldið voru það þreyttar mæðgur sem fóru í háttinn og pabbinn var frammi að ganga frá... En Home sweet Home!!!


Löng færsla, en ég held hún sé þess virði...

Jæja, þá er maður búinn að borða síðustu kvöldmáltíðina hér í bili. Á morgun er heimferð og hlakka ég rosalega mikið til að sjá hana Rebekku mína.

Við tókum daginn snemma í morgun - NOT- Við fórum ekki á fætur fyrr en um hádegi (sem er svo sem ekkert rosalega seint á íslenskum tíma...) og tókum strætó í Köbenhavns Kristnecenter sem er á Nörrebro. Við vorum um 45 mínútur á leiðinni í glampandi sól svo ég var að steikjast þarna inni. Veðrið var sem sagt mjög gott í dag. Jæja, við löbbuðum í KKC og settumst inn á kaffihús sem er rekið í húsinu (sem reyndar heitir Köbenhavns Kulturcenter). Það var reyndar svolítið fyndið að þegar við vorum að labba að húsinu frá strætóstoppistöðinni þá fór Gústi eitthvað að kannast við sig. Og viti menn, hann gisti í blokk sem er áföst húsinu þegar hann fór ásamt biblíuskólanemunum úr Fíladelfíu til Svíþjóðar og Köben sl. haust!! Hópurinn gisti hjá International Masters Commission í Köben eina nótt áður en þau flugu heim til Íslands.

Við fórum á samkomu kl. 15 hjá International Pentecostal Church og var þar alls konar fólk saman komið til að lofa Guð og heyra hans orð. Áður en samkoman byrjaði kom pastorinn í kirkjunni, Javan Júnior, og heilsaði upp á okkur. Svo byrjaði lofgjörðin og var öll umgjörð látlaus en samt flott. Ég kunni öll lögin nema eitt... Javan talaði svo nokkur orð um "metnað". Hann tók sem dæmi að ef við værum að sækja um vinnu og værum spurð hvar við sæjum okkur sjálf eftir 5 ár, og myndum svara að við vildum vera á sama stað eftir 5 ár þá værum við ekki talin með nógu mikinn metnað. Svo sagði hann að ef við myndum á hinn bóginn svara að við ætluðum okkur forstjórastólinn eftir 5 ár þá værum við talin of metnaðarfull... Pojntið var sem sagt að allir hafa áhyggjur af morgundeginum - það er okkur í blóð borið - EN er ekki allt í lagi að vera á sama stað eftir 5 ár ef maður er sáttur við það (og á kannski bara að vera þar samkvæmt Guðs vilja)? Þurfum við alltaf að vera að eltast við eitthvað eða einhverja og við vitum stundum ekki einu sinni til hvers eða hvers vegna??

Ræðan var í höndum Musikpastorsins í kirkjunni en hún heitir Katrina. Hún var greinilega dálítið stressuð en stóð sig mjög vel og var með frábært orð. Ræðan bar yfirskriftina "All you need is love" og lét hún salinn syngja þetta gamla bítlalag með sér... Ræðan fjallaði um það að skv. orði Guðs eigum við að fara út með fagnaðarerindið en við eigum (mörg hver - og örugglega fleiri en maður heldur) mjög erfitt með það. Við sitjum með vinum og fjölskyldu og í stað þess að tala við þau um Guð tökum við þátt í öðrum samræðum. Katrina talaði um þetta myndrænt og sagði að við værum öðrum megin og annað fólk hinum megin við stórt gap. Þá velti hún upp þeirri staðreynd að við eigum að sýna öllum elsku og við getum fyllt þetta stóra gap með elsku til annars fólks og náð þannig til þeirra. Við getum rétt þeim hjálparhönd, verið betri vinur, sýnt þakklæti eða eitthvað annað sem lætur fólk finna að við elskum það. Þannig gerði Jesús það. Hann læknaði, rétti hjálparhönd og lét fólk finna að hann elskaði það.

Mér finnst þetta frábær lausn fyrir þá sem eru ekki mjög mikið fyrir að tala um trú sína við aðra. Við getum sýnt hana á annan hátt. Ég held að þetta geti leitt til þess að maður verði með tímanum opnari og óhræddari... Nú er bara að taka áskoruninni sem Katrina gaf okkur í lokin...

Eftir samkomuna var frítt kaffi á kaffihúsinu og þar var fullt af fólki sem kom til okkar og spjallaði og þar á meðal nemandi úr MCI biblíuskólanum sem mundi eftir hópnum frá í haust. Svo var líka ein stelpa sem á íslenskan pabba, ein finnsk kona, dönsk hjón og fleiri. Þetta var mjög skemmtilegur eftirmiðdagur.

Nokkrir hlutir fannst mér mjög sniðugt við þessa samkomu. Við innganginn fengum við smá fréttabréf og í því var pláss til að skrifa niður minnisnótur frá samkomunni. Þegar ein mínúta var þar til samkoman byrjaði kom á skjátjaldið niðurtalning í sekúndum þar til samkoman myndi byrja. Þá fóru allir að fá sér sæti. Þegar Javan, Katrina eða aðalsöngkonan voru að biðja þá var þögn í salnum. Það voru ekki allir að keppast við að biðja upphátt, heldur voru bara sammála þeim í bæninni. Líkt og segir að við eigum að gera..... Svo gaf Javan ca. eina mínútu í þögula bæn þar sem við gátum talað við Guð sjálf, innra með okkur. Í fyrirbæninni, í lokin, stilltu fyrirbiðjendurnir sér upp með smá bil á milli sín og gat maður valið hvert maður fór til að láta biðja fyrir sér. Þau gengu ekki til þeirra sem vildu fá fyrirbæn heldur létu fólkið sjálft velja. Þetta myndi ég gjarnan vilja sjá í fleiri kirkjum... Mér hefur alltaf fundist óþægilegt þegar bara einhver gengur upp að mér og spyr "má ég biðja fyrir þér"... Mér finnst asnalegt að segja "nei, ég vil að annar biðji fyrir mér", dahhhh. Þess vegna er ég nánast hætt að fara fram til fyrirbænar þegar ég er á samkomu. Svona er ég bara skrítin...

Við fórum svo á Kebab stað og borðuðum og enduðum daginn á Hard Rock yfir ís og kaffi. Framundan bíður okkar að pakka niður....... eins og það er nú gaman.......

Jæja, þetta er farið að verða ansi löng færsla en vonandi hefur þú lesið til enda...

Jæja, Rósin okkar. Nú er bara ein nótt þar til við komum heim og sækjum þig og afa á flugvöllinn. Það verður algjört æði að hitta þig!! Þú getur svo farið og boðið Grétu Júlíu í heimsókn þegar við komum heim, eins og þú varst búin að biðja um. Sofðu vel í nótt og góða ferð í fluginu á morgun. Knúsaðu nú ömmu og afa rækilega fyrir allt sem þau hafa gert fyrir þig!

Við elskum þig. Þín mamma og pabbi

 


Gamlar amerískar bíómyndir í Köben...

Enn einn dagurinn að kveldi kominn og einn og hálfur dagur eftir af fríinu okkar. Hér á efri hæðinni býr greinilega fjörmikil lítil stúlka því í morgun vaknaði ég við hopp, skopp og hlaup. Mér fannst það nú bara vinalegt enda ýmsu vön frá mínum fjörkálfi! Gústi skokkaði út í Kvikly og keypti handa okkur rúnstykki, kókómjólk og jarðaber. Svo lágum við í rúminu og horfðum á ótrúlega væmna og eldgamla ameríska 15 klúta bíómynd með John Ritter. By the way getur einhver sagt mér... er aðalleikarinn í Scrubs nokkuð sonur hans?? Þeir eru alveg eins!

Við drifum okkur á fætur upp úr hádegi og fórum niður í bæ. Við byrjuðum á að fara í H&M og fá Tax refund kvittun. Það er svo fínt að maður getur verslað í hinum og þessum H&M búðum hér og farið svo með allar kvittanir í eina búð og fengið þessa Tax refund kvittun. Eftir það löbbuðum við niður á Nyhavn. Þar settumst við á útiveitingastað, fengum okkur ís og hlustuðum á jazz band spila live. Það var aldeilis notalegt enda veðrið upp á sitt besta! Í dag var sko sól og blíða.

Þessu næst lá leiðin í Tívolíið. Við löbbuðum þar marga hringi og þar fann ég svo sterkt hversu mikið ég sakna Rebekku. Mér fannst eiginlega bara óréttlátt að fara í tívolí án hennar Frown. Við fórum ekki í nein tæki en köstuðum einhverjum pílum, boltum og svoleiðis. Við unnum einn ponsulítinn bangsahaus á lyklakippu...

Um kvöldmat fórum við útúr tívolíinu og á indverskan veitingastað í nágrenninu (Indian Palace). Okkur dauðlangaði aftur í kjúkling í kvöld og fengum okkur af svaka flottu hlaðborði sem þarna var í boði. Okkur fannst maturinn alveg góður en samt ekki eins góður og sá sem við fengum í gær... Alla vega ekki miðað við verðið!!

Svo fórum við aftur í tívolíið og gengum nokkra hringi í viðbót áður en við fórum heim með strætó. Núna liggjum við flöt fyrir framan sjónvarpið og horfum á enn eina lélega ameríska kvikmynd, í þetta sinn með Rob Schneider...

P.s. Ekkert hefur sést (eða heyrst...) til nágrannanna okkar hér á móti í dag... 

 

Hjartans stelpan okkar!

Nú eru mamma og pabbi farin að sakna þín alveg hrikalega mikið! En það er sko bara smástund þar til við hittumst! Leiðinlegt að afi skuli vera búinn að fá flensuna þína. Við vonum að hann verði nú nógu hress til að koma með þér í flugið á mánudaginn. Þú verður að vera góð við hann og hjálpa ömmu að hjúkra honum. Hafðu það nú gott ástin okkar og njóttu þessara síðustu daga hjá afa og ömmu í bili.

Ástarkveðja frá mömmu og pabba


Malmö, naríur og nágrannar

Rosalega er tíminn fljótur að líða þegar maður er bara að slappa af og leika sér. Við eigum bara eftir að vera í Köben í tvo og hálfan dag en það er mikið tilhlökkunarefni að komast heim og knúsa Rósina litlu (stóru).

Í morgun fórum við með lestinni yfir Öresundsbrúnna til Malmö. Við tókum strætó út á Kastrup, fengum okkur hádegismat þar og fórum svo yfir. Svakalega var gaman að skreppa til Malmö. Mér fannst andrúmsloftið þar einhvern veginn allt annað en hér í Köben. Get ekki alveg lýst því en mér leið einhvern veginn þannig að hvert sem ég leit sá ég eitthvað fallegt og spennandi. Við gengum um allan miðbæinn, sem skiptist í alls konar hliðargötur og torg. Torgin voru æðisleg, komin sannkölluð sumarstemning með útimörkuðum og hljóðfæraleikurum með "hatta" um allt.

Við fórum að sjálfsögðu í nokkrar verslanir. Gústi fór í JC og keypti sér naríur... Hann elskar þessar naríur Grin. Við stoppuðum tvisvar sinnum á kaffihúsi, fyrst á Waynes Coffee og svo á Hollandia Konditori. Við mælum með þessu síðarnefnda. Mjög kósý staður með fínar veitingar. Svo gengum við meira og meira og skoðuðum okkur um.

Pabbi að tala við stelpuna sína í símann.Pabbi að tala við stelpuna sína í símann.

 

 

 

 

Gústi rakst svo á búð sem heitir Folk & Rock (stuttu eftir að ég sá einhverja spennandi búð og hann spurði "er ekki örugglega búið að loka...") en þar var ógrynni af geisladiskum og dvd diskum. Hann keypti þó ekki neitt, því búðinni var lokað stuttu eftir að við komum inn... Þessi búð stendur við torg sem heitir Lille torg og þar var ógrynni af veitingahúsum allan hringinn sem voru búin að setja upp útiborð með gashitablásurum. Við fundum indverskan stað og fengum okkur besta Tikka Masala kjúkling sem ég hef smakkað!! Og hef ég nú smakkað hann góðan!

DSC06752

Mamma á indverska veitingastaðnum. 

 

 

 

 

Við sátum þar í góðu yfirlæti þegar Gústi allt í einu segir "ERT'EKKI AÐ GRÍNAST!! Á næsta veitingastað við hliðina voru vinir okkar úr herberginu á móti mætt! Ég var ekki glöð því mig langaði sko ekkert að fá andlit við hljóðin sem ég heyrði í gær!! En það var svo sem of seint... því kerlan var í morgun frammi í eldhúsi á handklæðinu einu fata að bisa við að klæða sig því karlinn var inni í herbergi að skipta um rúmföt!! Wonder why! Framhald í næsta þætti Tounge

Klukkan langt gengin í níu tókum við svo lestina til baka. Fengum okkur kaffi á Starbucks á Kastrup og tókum svo strætó heim á gistiheimilið. Þetta er búinn að vera frábær dagur, eiginlega bara hápunktur ferðarinnar. Á morgun er stefnan sett á tívolíið...

Elsku stóra stelpan okkar,

Jæja, nú fer þetta að styttast, bara að fara tvisvar sinnum að sofa og svo hittumst við! Vá hvað við hlökkum til að faðma þig og kyssa. Gaman að heyra í þér í dag og hvað þú varst dugleg á skíðunum með afa! Líka gaman að heyra hvað þú ert dugleg að hjálpa afa við að smíða pallinn úti. Smíðakunnáttan er þér nú í blóð borin enda komin með ýmsa reynslu í þeim efnum. Jæja rósin mín, við biðjum voða vel að heilsa ömmu og afa og kysstu þau frá okkur fyrir hjálpina.

Við elskum þig og hlökkum til að sjá þig. Þín mamma og pabbi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband