2.9.2008 | 22:28
Borga, borga, borga
Jæja, enn ein mánaðamótin liðin og alltaf jafn gaman að borga reikningana... Ok, fúlasti reikningurinn þennan mánuðinn er sekt sem ég fékk. Ég keyrði gegnum Hvalfjarðargöngin á 78 km/klst og fékk 3.850 kr sekt... Mér að kenna, veit ég vel en samt hundfúlt að borga. Næst á eftir koma svo símareikningarnir en þeir hljóðuðu upp á 32.000!! Við skiptum í Vodafone fyrir nokkrum mánuðum og það átti að lækka reikningana... By the way - þeir voru í 18.000!! Og við höfum ekki breytt notkuninni. Eitthvað bogið við þetta sem ég ætla að komast til botns í.
En nóg af röfli í bili. Við erum búin að vera í tvo daga öll saman í sumarfríi! Það er búið að vera indælt. Fórum upp í bústað í gær og tíndum fullt af berjum, Rebekka og Gústi tíndu svo meira í morgun meðan ég fór í vinnuna fyrir múttu. Við fórum svo í afmæli í eftirmiðdaginn. Komum við í Einu sinni var og keyptum afmælisgjöfina og auðvitað fer maður ekki í dótabúð með frökenina án þess að kaupa eitthvað handa henni. Hún suðaði um andlitsmálningu þar til hún fékk hana. Hún átti hana nú alveg skilið fyrir berjatínsluna því hún er sko betri en engin í henni!
Afmælið var hjá hálfsystursyni Gústa og var öll föðurfjölskylda hans mætt nema hálfbróðir hans. Ég náði mér í uppskrift af frábærri epla/bláberjaköku. Hún verður prófuð um helgina. Rebekka var líka mjög ánægð með afmælið því hún fékk pakka eins og afmælisbarnið. Hún fékk smá glaðning frá afa Böðvari og Ástu frá útlöndum.
Á morgun fer Gústi aftur upp í bústað. Ég ákvað að við Rebekka verðum heima fram að helgi svo Gústi fái vinnufrið... Það er búið að kaupa efni í nýjan glugga, nokkrar rúður sem þarf að skipta um, svo þarf alveg að skipta um klæðningu á öðrum stafninum. Vonandi verður svo tími til að halda áfram með pallinn. Í vetur ætlum við svo að skipta út eldhúsinnréttingunni. Vinkilinn í eldhúsinu er ekki 90° svo við verðum að hugsa aðeins út fyrir rammann. Ég horfi á Design Star til að fá hugmyndir...
Góða nótt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2008 | 20:11
Bráðum kemur ekki...
... betri tíð... Alla vega finnst mér hálf haustlegt úti. Mælirinn skríður varla yfir 10 stigin og hráslagaleg rigningin lætur ekki á sér standa. Við eigum samt enn eftir að fara í berjamó. Maður lætur sig hafa bleytu og kulda um helgina bara til að komast aðeins í ber. Það er alla vega planið. Gústi er að fara í sumarfrí á mánudaginn og ég líka!! Ég tek viku með honum - þ.e.a.s. hann verður örugglega upp í bústað að vinna og ég í bænum. Ég ætla nefnilega að leysa mömmu af í hennar vinnu því gellan er bara á Spáni að spóka sig núna. Það er alltaf gaman að hitta liðið hjá Landhelgisgæslunni og Sjómælingum, þar er alltaf vel tekið á móti manni ef maður kíkir við.
Annars er lífið ósköp rólegt þessa dagana. Rebekka er byrjuð á nýrri deild á leikskólanum og er mjög ánægð þar, reyndar er hún alltaf ánægð í leikskólanum sama hvar hún er. Á þessari deild eru bara eldri börn og svo 7 önnur börn á sama ári og Rebekka. Henni finnst hún voða stór að vera komin á þessa deild. Þarna verður hún þar til hún byrjar í skóla eftir 2 ár.
Við Gústi erum búin að færa okkur aftur yfir í Fíladelfíu kirkjuna. Við tókum ákvörðun um það fyrir nokkrum vikum þar sem við komumst að því að stundum þarf maður ekki að bera vatnið yfir lækinn... Við erum mjög sátt við þessa ákvörðun. Gústi heldur áfram að spila í Samhjálp og svo er ýmislegt í boði. Hann er að hugsa málið...
Það styttist í Glasgow og ég þarf að fara að kynna mér mollin þar sem maður hefur bara einn dag til að eyða peningum...
Jæja, verð að hlaupa - smá óþekkt í anganum mínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ruslakarlar öskureiðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
15.8.2008 | 20:10
Sumarfríið...
... á enda . Ég byrja að vinna á mánudaginn og þá fer nú allt í fastar skorður aftur. Ég er virkilega búin að njóta þess að vera með Rebekku í þessu fríi. Mér finnst ég hafa verið svo heppin að fá að eiga þennan tíma með henni. Auðvitað er Gústi líka búinn að vera með okkur eftir vinnu og svoleiðis en þetta er búinn að vera alveg einstakur tími og gæfi ég mikið fyrir að geta unnið enn lægri prósentu en ég geri nú þegar. 50 % starf væri fínt... En það kemur nú kannski seinna þegar maður hættir á lúsarlaununum hjá ríkinu...
Annars er það að frétta að það eru ýmis ný verkefni í gangi hjá mér, þar á meðal mjög spennandi verkefni fyrir Lindina og verkefni fyrir Fíladelfíu. Ég tók starfsnámið mitt að stórum hluta til í Fíladelfíu þegar ég var í Kennó og nú fer ég að gera eitthvað í líkingu við það sem ég var að gera þá... Og það sem við Sheila erum að vinna að fyrir Lindina er ótrúlega skemmtilegt og við á rosa flugi hugmyndarlega séð... Áætlum afhjúpun verkefnisins í kringum 1. október... Segi ekki meir í bili...
Ég kem nú næstum á nýjan vinnustað þegar ég mæti til vinnu því þar er búið að snúa öllu á hvolf, þ.e. flytja deildir. Deildin mín er komin í annað og stærra rými og bíður mín að innrétta það. Það verður fyrsta verkefni. Svo er vetrarstarfið bara að fara í gang með öllu sem því fylgir. Ég er að fara inn í þriðja árið mitt í Gylfaflötinni og er ég með svona "mixed" tilfinningar gagnvart því. Part af mér langar að takast á við eitthvað alveg nýtt meðan annar partur hlakkar til að hitta ungmennin mín og gera það sem ég hef verið að gera... En er það ekki alltaf svona?
Annars er bara berjatínsla framundan, erum aðeins búin að kíkja og tína smá en við erum algjörir berjasjúklingar svo það er sko ekki nóg!
Hætti núna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2008 | 22:28
Sumarfríið að verða búið...
Jæja, nú er einn dagur eftir af sumarfríinu og þýðir það að ég hef ekki bloggað í u.þ.b. 5 vikur... Enda nóg annað að gera í sumarfríi. Ég er reyndar búin að vera veik sl. tvær vikur með ógeðslegt kvef og þrátt fyrir penisillín og sterasprey er það ekki á undanhaldi! Ég er orðin verulega þreytt á þessu og ætla aftur til doksa og heimta eitthvað ennþá sterkara!!!
Fórum þrátt fyrir heilsuleysi á Kotmótið og var það mjög fínt (fyrir utan beinverki o.fl........). En við höfðum það gott, vorum í tjaldi fyrstu nóttina því veðrið var alveg geggjað en fórum svo í hús á Hellu því það var töluvert kaldara seinni nóttina. Gústi spilaði á einni samkomu og Rebekka skemmti sér konunglega á barnamótinu. Hápunkturinn var samt að hitta Guðna Hjálmars úr eyjum. Hún bókstaflega ljómaði þegar hún sá hann, hljóp til hans og tilkynnti að hún væri komin! Hún er ekki alveg að fatta að fólk sem er oft í sjónvarpinu okkar sér okkur ekki... kemur með aldrinum. En á leiðinni í Kotið sagði hún; mamma, hvað heldurðu að Guðni segi þegar hann sér að ég er komin?? Sá verður hissa! Þvílík dúlla! En Guðni er góð fyrirmynd, enda forstöðumaður í eyjum og frábær með krökkunum.
Ættarmótið og norðurferðin voru fín líka. Óvenju margir á ættarmótinu og frábært veður sem við fengum á Grenivík. Komst samt að því að þar er dýrasta matvöruverslun sem ég hef farið í á landinu...
Það er svo sem ýmislegt annað sem maður er búinn að vera að brasa en ég nenni varla að týna það til hér... Bara lífið er gott fyrir utan kvef um mitt sumar! Og búið að vera yndislegt að vera með Rebekku í fríi. Gústi fer í frí í byrjun sept. í þrjár vikur. Fúlt að missa af því... en ég fæ þó einhverja uppbót á fríið vegna þessara veikinda, svo það er möguleiki á að ég verði eitthvað með honum í fríi.
Till next time
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2008 | 23:56
We are going on a....
... summer holiday!! Nú er ég búin að vera í sumarfríi í heila tvo daga og á eftir fjórar vikur og þrjá daga . Veðrið gæti varla verið betra og Rósin í fríi líka. Það eina sem skyggir á er að Gústinn okkar er ekki í fríi með okkur frekar en tvö síðustu sumur... Fúlt!
Ýmislegt planað í sumarfríinu. Vorum upp í bústað um síðustu helgi og ætlum okkar að vera þar helling í fríinu. Við mæðgur förum svo norður til tengdó á mánudaginn og verðum fyrir norðan í viku. Gústi sameinast okkur svo á ættarmótinu á föstudaginn 18. Þá förum við líka í afmælið hans Hauks Pálma. Ættarmótið stendur svo alla helgina á Grenivík og verður pottþétt fjör þar! "Bandið hennar Önnu" verður að spila. Þ.e. bræður mínir og Gústi. Svaka stemning. Alla vega mun ég skemmta mér vel! Svo förum við á Kotmótið um versló. Er búin að skrá Rebekku á barnamótið og hlakkar hún mest til að hitta Guðna úr Eyjum. Hún er sko alltaf af og til að horfa á upptökur frá í fyrra og fílar Guðna í tætlur.
Svo á náttúrulega kerlan afmæli nk. sunnudag. Bara lítið í þetta sinn - 33ja. Hélt reyndar í fyrra að ég væri að verða 33ja þá og sagði það við alla en fékk, mér til mikillar ánægju, heilu ári bætt við ævi mína
Ég var að senda þrjár myndir inn í ljósmyndasamkeppnina á mbl.is, bara af gamni. Býst nú ekkert við að vinna sko, enda fullt af rosalega flottum myndum þar. Ætla að senda fleiri seinna en þessar fengu að fara núna
Komdu þér hinum megin!
Kisa lýst vel á Sollu stirðu
Gagnkvæmt traust
Over and out í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2008 | 22:10
Hellingur af myndum...
Bara að láta þá útvöldu, sem hafa lykilorð að síðu prinsessunnar, vita að ég er loksins búin að koma inn nýjum myndum. M.a. frá ferð til Stykkishólms, 17. júní, siglingu með varðskipinu Ægi og fleiri.
Njótið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2008 | 21:15
Það er komið sumar og sól í heiði skín.
Jæja, nú er maður bara allur að koma til... Ákvað í samráði við lækninn minn að byrja aftur á lyfinu (hálfan skammt) og trappa mig svo bara ennþá hægar niður... Mér líður miklu betur og öll óþarfa viðkvæmni úr sögunni... Ég ætla nú að sjá til hvort ég fæ ekki bara að skipta um lyf og fara á eitthvað hættulaust ef úr verður það sem við erum að plana... Ég nenni alla vega ekki að vera eitthvert tilfinningaskrímsli
Annars er allt gott að frétta af fjölskyldunni. Veðrið búið að vera yndislegt sl. vikur og við notið blíðunnar ýmist í Reykjavík, Ölver, Borgarnesi eða Akranesi... Við erum búin að vera mikið upp í bústað núna. Vorum alla síðustu helgi og voru pabbi og Gústi þvílíkt vinnusamir. Lögðu dren kringum allt húsið, settu niður undirstöður fyrir sólpallinn og Gústi málaði helling utanhúss og pabbi er að verða búinn að smíða dúkkuhús fyrir Rebekku. Við Rebekka vorum líka duglegar... Rebekka var eins og frímerki á rassinum á afa sínum. Elti hann hvert sem hann fór og "hjálpaði" honum að smíða... Algjör rúsína þegar hún var að segja afa sínum til . Hún samdi m.a. við hann um að fá að eiga smá hlut í vörubílnum. Enda búin að taka rúnt á honum, sturta og allt!
Við fórum í sund í Borgarnesi á laugardaginn í þvílíku blíðveðri. Meira að segja pabbi lagðist í sólbað á bekk! Það var nú hálf fyndið, hann sem yfirleitt er sko í síðbrók og vinnuskyrtu og peysu allt árið um kring, sama hvernig viðrar. Á sunnudaginn fórum við Rebekka svo í afmæliskaffi til Erlu og Hjalta á Akranesi. Þar fengum við aldeilis góðar veitingar og auðvitað gott samfélag.
Nú er ég farin að vinna hálfan daginn. Er í sumarfríi á móti. Er sem sagt að vinna fyrir hádegi tvo daga í viku og eftir hádegi þrjá. Mér finnst það fínt, við Rebekka erum bara að dúlla okkur hérna heima á morgnana. Ég mun vinna svona þar til ég fer alveg í frí 7. júlí. Svo eftir frí tekur við gamla rútínan.
Í dag dröslaði ég hrærivélinni fram úr búrinu og skellti í nokkrar uppskriftir. Ég er alveg búin að fá nóg af verðlaginu hér á landi og ákvað að gera líkt og formæður okkar gerðu! Bakaði eina skúffu, kryddbrauð, sandköku og kanelsnúða. Mitt fólk var nú alveg þokkalega ánægt með framtakið. Fengu að smakka eftir að hafa fengið gamaldags makkarónugraut í kvöldmatinn.
Jæja, best að fara að huga að þvottinum... alltaf nóg af honum.
Eigið góða daga - vonandi jafngóða og ég!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2008 | 20:16
Heilsubælið í Grafarholti og óvenju dýr helgi...
Þessa dagana er ég að reyna að lifa mínu ósköp venjulega og tíðindalitla lífi sem húsmóðir í Grafarholtinu, mamma, eiginkerling og verkstjóri EN það gengur frekar erfiðlega... Ástæðan er þessi líðan sem ber einkenni "þynnku" og á sér nú aðrar orsakir en áfengisdrykkju, enda hef ég stundað hana í óhóflega miklu hófi síðustu ár!
Ég er ekki ólétt! Alla vega ekki ennþá, en hver veit hvað nánasta framtíð ber í skauti sér... Og hvers vegna er ég ekki ólétt?? Jú, vegna lyfs sem ég hef tekið að staðaldri í 8 ár fyrir utan tímann sem ég var ólétt af prinsessunni... Það er sem sagt ekki hægt að mæla með því að verða ólétt á þessu lyfi... Nú er ég að taka út brjáluð fráhvarfseinkenni sem lýsa sér helst í "þynnkulíðan", ógleði, slappleiki, magaverkur, hausverkur, minnkuð matarlyst en svo allt í einu brjáluð "craving" í eitthvað sérstaklega gott að borða...
Önnur fráhvarfseinkenni sem ég finn fyrir eru kitl í iljarnar (líkt og smá rafstuð) og viðkvæmni... Reyndar segir fjölskyldan að þar sé mér nú bara ljóslifandi lýst! Grenjaði yfir auglýsingunum í sjónvarpinu í gær!!! Var líka í mæðrablessun Söru vinkonu í síðustu viku og ætlaði varla að geta talað fyrir grenjum... Grenja meira að segja yfir One Tree Hill og What about Brian!!! En mér finnst gott að gráta svo þetta er svo sem ekkert að há mér verulega... leiðinlegt reyndar þegar ég byrja að væla í vinnunni.
Ég hef lítið verið í vinnunni þessa daga sem mér hefur liðið verst og veit ekki alveg hvernig næsta vika verður... En ég vona það besta, og hef fengið alveg ótrúlegan skilning í vinnunni.
Ég hef nú reynt að sinna helstu verkefnum fjölskyldulífsins síðustu daga, svona í samræmi heilsuna... Ekkert voða mikið á daga okkar drifið, tvær sundferðir, ein nótt í bústaðnum, fundur fyrir ættarmótið og svo bara þetta venjulega, eldamennska, þvottur, þrif og barnauppeldi . Gústi minn er voðalega skilningsríkur og hjálpsamur við mig þessa daga, enda varla annað í boði fyrst hann er nú einu sinni kvæntur mér!
Annars var þessi helgi ein sú dýrasta fyrir okkur í langan tíma! Í sundi á fimmtudaginn voru eigendur að bílum með númerunum "bla, bla" kölluð upp og vinsamlegast beðin að koma í afgreiðslu. Þetta voru báðir bílarnir okkar!!! Gústi kom á eftir okkur Rebekku í sund á súkkunni og lagði fyrir aftan Toyotuna okkar. Eitthvað gerðist og súkkan rann aftan á Toyotuna! Eitt ljós brotið og aðeins skakkur stuðari á súkkunni og smá dæld á Toyotunni.
Svo gerðist það upp í bústað að dúllusnúllan okkar ákvað að skreyta Toyotuna okkar með því að gera listaverk með flöskutappa á bílstjórahurðina. Sú stutta varð nú ansi skömmustuleg þegar hún gerði sér grein fyrir því sem hún gerði en fær að vinna af sér tjónið . Hún kemur til með að fá viss verkefni hér á heimilinu sem hún þarf að sinna til að "borga" tjónið.
Jæja, nóg um okkar tilveru í bili...
´till later
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.5.2008 | 23:08
Móðursýki og sumarsmellir...
Ég er búin að endurheimta tölvuna mína úr "hreinsun". Hún var stútfull af alls konar auglýsingaforritum og öðru drasli en núna er hún, thanks to Frisk, orðin hrein og fín og ég get farið að tjá mig á netinu á ný... Gaman ekki satt?!
Jarðskjálftinn er efstur á dagskrá um þessar mundir. Ég hef aldrei upplifað jarðskjálfta áður, bjó í Norge þegar allt skalf hér árið 2000. Ok, ég varð skíthrædd, ein heima, uppi á fjórðu hæð, og allt hristist og gekk til. Það fyrsta sem ég hugsaði: Er allt í lagi með Rebekku og Gústa?! En svo um kvöldið þegar ég ætlaði að fara að sofa þá bara fór mín að grenja og hringdi í mömmu eins og 10 ára krakki... Fannst ég eitthvað voða lítil...
Sumarið á næsta leiti, ekki satt? Eitt sem mér finnst vera svona merki um sumarkomu er þegar hljómsveitir byrja að senda frá sér "sumarsmelli". Maður á nú nokkra uppáhalds sumarsmelli sem minna á þetta eða hitt sumarið... Eitt af mínum uppáhalds lögum er Sól um nótt með Sálinni og minnir mig mikið á sumarið 1995. Núna er ég að fíla Bahama, Árin og Kósíkvöld í kvöld. Það verða mín 2008 lög. Rebekka er líka alveg að fíla Bahama! Í fyrra hlustuðum við endalaust á Sniglabandið og Selfoss er... Við erum líka svolítið dottin í Júró lög. Ég fíla danska lagið í tætlur og hækka vel í útvarpinu þegar það er spilað.
Annars er lítið að frétta af okkur. Styttist í sumarfrí með ættarmóti, vinnu í sumarbústaðnum, heimsókn til Akureyrar, Kotmóti og einhverju fleiru... Ég hlakka mikið til að fara í frí, finn að ég er orðin smá leið í vinnunni. Hef verið að spá í að fara í masterinn í haust, svona til að breyta til en er ekki viss um hvort mig langi strax. Fer kannski bara frekar í kennsluréttindin... Eða geri eitthvað alveg nýtt og fer aftur í framhaldsskóla og fer að læra húsasmíði ha/ha!! Nei, ætli ég verði nú bara ekki í Gylfaflötinni, maður kemur ferskur inn eftir frí...
Finn að Rebekka er líka komin í þörf fyrir frí. Hún er náttúrlega svo orkumikil að hún er alltaf að, alla daga. Við náum henni varla inn á kvöldin en svo er hún alveg útkeyrð greyið. Hún er alltaf á línuskautunum eða á hlaupahjólinu og vill helst bara vera í göngutúrum eða í sundi... Í reynd ætti maður að vera 25 kíló með veskinu en maður leggst í ísskápinn eftir að hún er sofnuð .
Jæja, orkan búin í mér í bili, ætla að fara að leggja mig. Tók að mér að leysa af í eldhúsinu í vinnunni þessa viku og ég er alveg búin eftir vikuna, enda er ég búin að elda og baka ofan í um 40 manns. Mér finnst það mjög skemmtilegt og góð tilbreyting en maður hefur ekki alveg verið að standa upp á endann síðustu ár... Maður var greinilega í miklu betra formi þegar maður var í þjóninum á 12 tíma vöktum...
"Gamla þreytta kellan" kveður að sinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)