Það er komið sumar og sól í heiði skín.

Jæja, nú er maður bara allur að koma til... Ákvað í samráði við lækninn minn að byrja aftur á lyfinu (hálfan skammt) og trappa mig svo bara ennþá hægar niður... Mér líður miklu betur og öll óþarfa viðkvæmni úr sögunni... Ég ætla nú að sjá til hvort ég fæ ekki bara að skipta um lyf og fara á eitthvað hættulaust ef úr verður það sem við erum að plana... Ég nenni alla vega ekki að vera eitthvert tilfinningaskrímsli W00t

Annars er allt gott að frétta af fjölskyldunni. Veðrið búið að vera yndislegt sl. vikur og við notið blíðunnar ýmist í Reykjavík, Ölver, Borgarnesi eða Akranesi... Við erum búin að vera mikið upp í bústað núna. Vorum alla síðustu helgi og voru pabbi og Gústi þvílíkt vinnusamir. Lögðu dren kringum allt húsið, settu niður undirstöður fyrir sólpallinn og Gústi málaði helling utanhúss og pabbi er að verða búinn að smíða dúkkuhús fyrir Rebekku. Við Rebekka vorum líka duglegar... Rebekka var eins og frímerki á rassinum á afa sínum. Elti hann hvert sem hann fór og "hjálpaði" honum að smíða... Algjör rúsína þegar hún var að segja afa sínum til Smile. Hún samdi m.a. við hann um að fá að eiga smá hlut í vörubílnum. Enda búin að taka rúnt á honum, sturta og allt!

Við fórum í sund í Borgarnesi á laugardaginn í þvílíku blíðveðri. Meira að segja pabbi lagðist í sólbað á bekk! Það var nú hálf fyndið, hann sem yfirleitt er sko í síðbrók og vinnuskyrtu og peysu allt árið um kring, sama hvernig viðrar. Á sunnudaginn fórum við Rebekka svo í afmæliskaffi til Erlu og Hjalta á Akranesi. Þar fengum við aldeilis góðar veitingar og auðvitað gott samfélag.

Nú er ég farin að vinna hálfan daginn. Er í sumarfríi á móti. Er sem sagt að vinna fyrir hádegi tvo daga í viku og eftir hádegi þrjá. Mér finnst það fínt, við Rebekka erum bara að dúlla okkur hérna heima á morgnana. Ég mun vinna svona þar til ég fer alveg í frí 7. júlí. Svo eftir frí tekur við gamla rútínan.

Í dag dröslaði ég hrærivélinni fram úr búrinu og skellti í nokkrar uppskriftir. Ég er alveg búin að fá nóg af verðlaginu hér á landi og ákvað að gera líkt og formæður okkar gerðu! Bakaði eina skúffu, kryddbrauð, sandköku og kanelsnúða. Mitt fólk var nú alveg þokkalega ánægt með framtakið. Fengu að smakka eftir að hafa fengið gamaldags makkarónugraut í kvöldmatinn.

Jæja, best að fara að huga að þvottinum... alltaf nóg af honum.

Eigið góða daga - vonandi jafngóða og ég!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Anna mín. Já, veðrið er búið að vera einstaklega fínt og þá er ekki verra að geta notið þess í botn. Mikið varstu dugleg að baka, ég þyrfti að taka þig til fyrirmyndar... koma tímar, koma ráð!!!

Kveðja úr Firðinum.

Sara H. (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 11:03

2 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Eins og vinkona mín sagði. Hún neitaði alveg að taka þátt í þessari verðbólgu og fór bara að baka! Glæsilegt!

Bryndís Böðvarsdóttir, 3.7.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband