10.1.2008 | 20:05
Gleðilegt...
...ár kæru lesendur! Hér hefur nú verið ósköp rólegt síðustu vikur enda nóg annað að gera en að blogga einhverja vitleysu...
Jólin og áramótin voru yndisleg. Áttum góða daga með góðum mat, ættingjum og vinum. Er hægt að hafa það betra? Það helsta sem gerðist var að við vorum með kakó og smákökur fyrir systkini mín laugardaginn fyrir jól. Mamma eyddi aðfangadagskvöldi með okkur. Við fórum svo í hangikét til hennar á jóladag. Við mæðgur fórum svo í sjötugsafmæli Öggu frænku á annan. Helga frænka kom í heimsókn frá Sólheimum og gisti eina nótt hjá okkur. Fórum í matarboð til Böðvars og Ástu. Vorum svo á gamlárskvöld hjá Þorgilsi bróður og Ernu. Þar voru líka mamma, pabbi og pabbi Ernu. Það var fínt og Rebekku fannst mjög spennandi að skjóta upp með pabba sínum. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er ekki grenjandi af hræðslu á gamlárskvöld. Gústi var, eins og alltaf, mikið að vinna yfir hátíðarnar... Enda gósentíð ruslakarla. Hann var nú að keyra sem er aðeins skárra en að trilla... Við mæðgur fengum einn aukafrídag þar sem það var starfsdagur á leikskólanum 2. jan.
Lífið komst svo í rútínu 3. jan þegar allir mættu í vinnu og á leikskólann. Margt spennandi framundan í vinnunni hjá mér bæði í verkstjórastarfinu og í ímyndarhópnum hjá SSR. Erum að fara í gang með fullt af nýjum verkefnum. Rebekka byrjar í íþróttaskólanum nk. laugardag og svo er hún á fullu að æfa sig á línuskautunum sem hún fékk í jólagjöf frá okkur. Hún er ótrúlega flínk á þeim og við erum líka búin að fara nokkrum sinnum á skauta í Egilshöll og þar er hún líka að brillera. Er byrjuð að prófa að sleppa grindinni. Hún er nú líka algjör íþróttafrík þessi stelpa okkar. Hún er mjög ákveðin í því hverju hún vill klæðast og eru íþróttaföt þar efst á lista, næst eru gallabuxur og svo langneðst eru "fín" föt en það eru öll önnur föt... Hér er oft dálítil togstreita á morgnana... En við fórum í gang með límmiðakerfi í byrjun árs sem er að koma ágætlega út og svo fara línuskautarnir reglulega inn í geymslu þegar sumir rassar geta ekki setið kyrrir við kvöldmatarborðið eða sum eyru eru lokuð...
Gústi er byrjaður að spila með öðru lofgjörðarbandi sem spilar á samkomum á miðvikudagskvöldum. Hann er því að spila bæði miðvikudags- og fimmtudagskvöld. Sem betur fer eru æfingar samdægurs svo þetta er ekki að hafa mikil áhrif á fjölskyldulífið... Ég er líka svo glöð að hann er farinn að starfa meira með Halldóri Lár því þeir hafa alltaf átt svo gott samband.
Sumarbústaðurinn er að verða tilbúinn innanhúss! Við fórum upp eftir um síðustu helgi og röðuðum upp húsgögnum svo nú er hægt að sitja til borðs við að borða og liggja í sófanum og horfa á tv... Auðvitað er margt sem á eftir að gera en það kemur allt með tímanum. Þetta er jú framtíðarverkefnið okkar...
Jæja, þá er enn ein langlokan mín á enda... Eigið gott kvöld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2007 | 22:14
Af kartöflum...
Jæja, jólin nálgast nú óðum og dóttir okkar fékk sína fyrstu kartöflu í skóinn sl. nótt... Hún var nú sniðug og faldi kartöfluna undir sænginni sinni, kom svo yfir til mín og sagðist ekkert hafa fengið í skóinn... Ok, ég stóð litlu saklausu stúlkuna mína að meðvituðum lygum í fyrsta skipti og langaði að grenja!! En, nú er það undir okkur foreldrunum komið að beina henni inn á réttar brautir. En alla vega, hún er búin að vera mun meðfærilegri í dag en í gær og lítur út fyrir að næsti jóli komi með eitthvað sniðugt í skóinn...
Fórum á jólaball í sunnudagaskólanum í gær. Rebekkan ennþá sk..hrædd við jólasveininn þrátt fyrir að hann væri bara vinur okkar Björn Tómas í búningi... Gaman að hitta hann eftir langan tíma, þ.e. Björn Tómas en ekki jólasveininn...
Fórum svo í kaffi til Þorgilsar og Ernu í gær. Sabrína og Þorgils Páll voru hjá pabba sínum og var mjög gaman að hitta þau. Rebekka elskar að hitta þau! Þau eru líka bæði svo góð við hana, nenna að sinna henni og leika við hana. Það er nú ekki ónýtt fyrir litla stelpu. Mamma og Steindór og pabbi voru þarna líka og vorum við fullorðna fólkið að farast úr hlátri yfir einhverjum fimmaura bröndurum... Spurning hvort Þorgils hafi blandað einhverju í fína Dunkin´Donuts kaffið sem hann bauð uppá??
Enn ein lægðin að ganga yfir okkur hér... mér lýst alltaf betur og betur á hugmyndina hans Gústa um að flytja til Svíþjóðar... Who knows... En það er nú svo sem ekki að gerast alveg á næstunni...
Jæja, ætla að kíkja aðeins á Næturvaktina með Gústa mínum áður en ég skoða landslagið bakvið augnlokin...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2007 | 20:12
Mitt hjerte alltid vanker i Jesu föderum.
Ég hef það stundum svo gott að ég þarf að klípa sjálfa mig í handlegginn til að vita hvort mig sé að dreyma. Sit hér í stofunni heima, hlusta á yndislega jólatónlist með Oslo Gospel Kor, Rebekka mín sefur á sófanum við hliðina á mér og Gústi minn heima hjá okkur. Betra gerist það varla á dimmu vetrarkvöldi... væri samt alveg til í smá Grýlu-kanil kaffi frá Kaffitár, þá væri kvöldið fullkomnað. Það er til inn í skáp svo það er bara spurning um að nenna að standa upp...
Við familían bökuðum jólasmákökur áðan. Allir að hjálpast að nema Rebekka sem getur allt sjálf!! Þetta gekk þó allt saman að lokum og allir ánægðir með afraksturinn.
Helgin var rosa fín. Keyptum spariskó á dúlluna á laugardag í fyrstu búðinni sem við fórum inn í í Smáralind. Geri aðrir betur! Svo fórum við bara á kaffihús og slöppuðum af... enda BÚIN að kaupa allar jólagjafir!! Ég náði markmiðinu um að vera búin fyrir 1. des. Ég á reyndar Gústa minn eftir en það tilheyrir algjörlega síðustu vikunni fyrir jól!
Í gær fórum við upp í Ölver að kíkja á bústaðinn okkar. Mikið var yndislegt að koma þangað! Svo er hann að verða ekkert smá flottur að innan. Pabbi búinn að lakka parketið og flísaleggja forstofuna. Nú er bara næsta mál á dagskrá að flytja öll húsgögn upp eftir og koma öllu notalega fyrir.
Jæja, ég ætla að hætta núna og fara að setja nokkrar nýjar myndir inn á síðuna hennar Rebekku.
Eigið gott kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 19:35
Fýluferð á slysó í gær...
Já, við fórum eina ferð á slysó í gær með hana Rebekku okkar. Við áttum að vera á leiðinni í skírn í Keflavík en hún elsku dóttir okkar tók upp á því að gleypa silfurhringinn sinn sem hún fékk í gjöf frá Birnu fyrrum dagmömmu okkar. Hún alla vega grét sárt og fullyrti að hún hefði gleypt hann. Til að gera langa sögu stutta vildi læknir sem við töluðum við að teknar yrðu röntgenmyndir af frökeninni til að vera þess fullviss að hringurinn hefði farið í magann en sæti ekki fastur á einhverjum óæskilegum stað. Eftir tvær myndir og margar afsökunarbeiðnir (því það fannst enginn hringur á myndunum!!) fannst hringurinn úti í bíl, grafinn inn í bólstrið á barnastólnum! Við biðum heillengi eftir að fá að fara, fyrst við vorum komin inn í kerfið varð læknir að gefa okkur grænt ljós og bið var á honum. Á endanum fór ég eins og bjáni í afgreiðsluna og bað um fararleyfi fyrir okkur þar sem hringurinn væri nú kominn í leitirnar! Allir voru voða skilningsríkir en við vorum frekar leið yfir að eyða tíma heilbrigðisstarfsfólks til einskis. Kenningin er sú að Rósin okkar hafi verið með hringinn upp í sér, hann hrokkið útúr henni og hún einhvern veginn skynjað það þannig að hún hafi kyngt honum... En við lærum öll af þessu, bæði við foreldrarnir og litla dúllan okkar...
Við misstum af skírnarathöfninni en mættum í veisluna og fengum þar góðar veitingar. Verið var að skíra litlu stelpuna hjá Snjólaugu og Fúsa og hlaut hún nafnið Lilja María. Það var mjög gaman að hitta góða ættingja og njóta samvista við þá.
Gústi fór svo á kótilettukvöld í Samhjálp í gærkvöldi. Hann var að spila. Ég vildi ekki fara með því við vorum ekki með pössun og svo þurfti ég að fara upp á leikskóla kl. 9 í morgun að undirbúa jólaföndur. Gústi bloggar nú kannski um þetta kvöld... humm Gústi...
Í morgun var svo nóg að gera, fyrst undirbúningur hjá mér og svo hitti ég feðginin í sunnudagaskólanum þar sem við áttum notalega stund (á stundum frekar of rólega ) og svo fórum við öll saman á leikskólann þar sem við föndruðum saman alls kyns jóladót og skreyttum piparkökur. Þetta var mjög skemmtilegt og Rebekka mjög dugleg.
Ég fékk svo að fleygja mér (ekki á færeysku þó) í smá stund þegar heim kom en svo kíkti pabbi í heimsókn og þá var mér ekki til legunnar boðið lengur. Við drukkum eftirmiðdagskaffi saman. Rebekka fékk svo að hringja í Grétu Júlíu vinkonu sína og bjóða henni í heimsókn. Hún var komin innan 5 mínútna og voru þær stöllur mjög góðar að leika sér. Þær voru með jólatónlist á og var alveg yndislegt að hlusta á þær syngja með! Það verða örugglega ekki mörg árin þar til Rebekka gefur út sinn fyrsta geisladisk...
Jæja nú ætla ég að hætta. Maður ætti kannski að blogga aðeins oftar og styttra í einu... Þetta eru orðnar hálfgerðar langlokur hjá mér...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2007 | 21:33
Ég var tilbúin að fórna sjálfri mér áðan...
...fyrir teikningar dóttur minnar! Þannig var mál með vexti að við mæðgur vorum staddar í Hafnarfirði í dag, í heimsókn hjá vinafólki, og þegar við vorum að fara út í bíl í myrkrinu hrifsaði vindurinn teikningar sem dóttir mín hafði gert. Ég, hin sanna móðir hljóp af stað á eftir blöðunum og náði nokkrum við bíl á bílastæðinu en hin fuku aðeins lengra. Ég ætla að teygja mig eftir þeim þegar ég, einhvern veginn, missi jafnvægið og dett með miklu splassi í poll!! Ég lá sem sagt á hliðinni í götunni með blöð í báðum höndum, dóttirinn í uppnámi (bæði fyrir því að rokið tók blöðin hennar og líka yfir uppátæki móður hennar að leggjast í götuna!) og bíll að bíða eftir að komast fram hjá mér!! Ok, ef þið heyrið af klikkaðri konu að skríða um götur Hafnarfjarðar þá er það mjög líklega ég... Ég uppskar blaut og drullug föt, bólgu á hendi og auma mjöðm! Líður eins og ég sé 82ja en ekki 32ja...
Annars er allt annaði í góðum gír hjá okkur. Allt í venjulegri daglegri rútínu. Gústi farinn að vinna og svo var hann á Lindinni í dag. Hann er líka að fara að spila á kótilettukvöldinu í Samhjálp nk. laugardag svo hann skrapp á æfingu áðan líka. Ég var á konfektgerðarnámskeiði sl. föstudagskvöld. Lærði að gera alls konar konfekt en líkaði ekkert sérstaklega við það því það var marsipan í svo mörgum uppskriftunum... Gústi marsipan"fan" er aftur á móti hæst ánægður. Við skiptum... hann fékk konfektmolana mína og ég Tobleroneið sem hann keypti í fríhöfninni . Við erum náttúrulega bara sælkerar og það leynir sér svo sem ekkert...
Á döfunni hjá okkur er svo skírnarveisla nk. laugardag. Föndur í leikskólanum á sunnudaginn og svo verð ég að klára jólagjafainnkaup í næstu viku ef ég ætla að ná markmiði mínu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2007 | 21:26
Eiginmaðurinn endurheimtur...
frá ríki Svíja! Já, Gústi minn kom heim í dag. Við Rebekka fórum suður á völl og sóttum gripinn og var brunað (á smá ólöglegum hraða en ekkert mikið ) í bæinn því leikskóli Rebekku átti 5 ára afmæli í dag og var Gústi beðinn að taka aðeins í gítarinn í veislunni. Við vorum komin í Grafarholtið rétt fyrir 4 og var Gústi varla kominn inn úr dyrunum þegar hann hóf upp raust. Það gekk allt saman vel og fengum við laglegar kræsingar að launum. Leikskólinn er annars kominn með nýja heimasíðu www.mariuborg.is
Það var nú gott að fá Gústa heim og eru þau feðgin núna að syngja fyrir hvert annað inn í herbergi. Rebekka sofnaði á leiðinni á völlinn í dag (hraut!!) og er því frekar seint á ferðinni núna. Pabbi kom með smá pakka handa stelpunni sinni. Hún fékk Leiftur McQueen úr Cars og er búið að búa um bílinn í sérstöku rúmi... Hún var mjög glöð. Ég fékk aftur á móti uppáhalds body lotionið mitt. Varð reyndar að biðja um það og senda nafnið á því á sms til Gústa míns... en hann getur nú ekki verið fullkominn í öllu sem hann gerir Það tók hann ekki nema hálftíma að finna það í fríhöfninni á Kastrup, en hann var skotfljótur að finna Ipod handa sjálfum sér, tvo geisladiska og fá sér að borða ha/ha. Krúttið mitt!
Jólagjafakaup ganga stórvel, bara örfáar eftir. Vona að ég geti náð markmiði mínu að vera búin að kaupa allar gjafir og skrifa jólakortin fyrir 1. des. Var að spá í að opna veðbanka...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2007 | 23:57
Dóttir mín er fyndin...
Rebekka á það til, líkt og önnur börn, að segja ýmislegt sem kallar fram bros hjá manni. Í vetur eru börnin á Maríuborg að læra um dyggðir og nú er verið að taka fyrir dyggðina vinsemd. Í dag vorum við að fara í heimsókn til mömmu þegar Rebekka spyr allt í einu: mamma, má ég koma með inn til ömmu? Ég segi: já, já auðvitað máttu það. Eftir smástund heyrist úr aftursætinu: takk mamma mín fyrir að sýna mér svona mikla vinsemd!! (Ég sem ætlaði náttúrulega að láta barnið bíða út í bíl meðan ég væri í kaffi hjá múttu.....dööö)
Vinkona hennar Rebekku var í heimsókn hjá henni í dag og voru þær að leika með eldhúsdót. Þær voru að vaska upp í leikvaskinum. Rebekka útskýrir fyrir vinkonunni að diskarnir eigi að fara í þar til gerða grind eftir uppvaskið. Þá svarar vinkonan: já, af því að ég er svo kvefuð! Svona geta hlutirnir átt einfaldar skýringar í barnshuganum.
Við mæðgur ákváðum að fara út að borða í kvöld í tilefni þess að vera grasekkjur. Rebekka var búin að biðja um kjúkling. Þegar við erum svo komnar í bílinn og erum að keyra af stað segi ég við Rebekku: ertu viss um að þú viljir kjúkling, viltu ekki hamborgara eða fisk? Þá heyrist frá þeirri stuttu: mamma ég sagðist vilja kjúkling, hættu þessu bulli!!
Að lokum þetta: Rebekka nefnir hlutina sínum nöfnum og fæst oft ekki til að breyta því. Hér eru nokkur dæmi: playmó = Klaymó, Lea Mjöll = Mea Mjöll, Hamar = bankari, Dyrasími = hurðasími, Skæri = oftast kölluð klippur, Derhúfa = hattahúfa.
Góða nótt enn á ný
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2007 | 22:10
Það er eins gott...
...að ég á ekki marga dygga lesendur því þá væri ég búin að valda svo gífurlega mörgum vonbrigðum sl. daga... Gott að þetta eru bara örfáir sem líta hér inn og sjá ekkert nýtt... En tölvan er búin að vera að stríða mér, slekkur á sér í miðjum klíðum og svona gaman gaman. Gústi komst að því að það er víst ekki gott fyrir plöggin að sitja með tölvuna í fanginu í sófanum og hnoðast á plöggunum... Einhver smá bilun þar en svo lengi sem ég nenni að sitja við borð með tölvuna og hreyfa hana ekki, þá get ég notað hana.
Við Rebekka erum grasekkjur þessa stundina þar sem Gústi er stunginn af til Svíaríkis. Honum var boðið þangað og hvernig getur maður sagt nei við útlöndum "on the house"? Hann er sem sagt með biblíuskólanum í Fíladelfíu þarna úti og á eitthvað að vera að spilast fyrir svíann. Það er bara gott mál og vona ég að hann eigi frábæran tíma þarna úti og komi eldheitur í Guði til baka. Ekki það að ég sakna hans og hlakka til að sækja hann á völlinn í næstu viku.
Síðasta vika leið í eins konar móki hjá mér. Ég var ekki alveg á meðal vor þá dagana. Var heima frá vinnu í tvo og hálfan dag. Ég held að ég hafi verið með einhverja leyniflensu því ég hafði engan hita, ekki beinverki eða neitt þannig heldur bara hrikalega vanlíðan í öllum kroppnum og sérstaklega í gamla bakinu mínu... Mér fannst ég líka geta sofið endalaust, en Guði sé lof því ég er vöknuð til meðvitundar. Mætti eldhress til vinnu á mánudaginn.
Tengdó kom um síðustu helgi, Bryndís mágkona átti 35 ára afmæli sl. föstudag. Við fórum öll í kaffi til hennar þann dag. Á laugardag komu svo tengdó til okkar og eyddu deginum með okkur, ég reyndar bara hálf einhvern veginn (samt ekki rallhálf). Rebekka Rós fór í hjólatúr með afa sínum og kom útsofin tilbaka . Hún var í stól aftan á hjólinu hjá afa og steinsofnaði bara. Afi græddi heilmikið í ferðinni, náði að líta haförn og rjúpur augum... hér í borginni takk fyrir.
Gústi og pabbi voru svo í Ölver á sunnudaginn að pússa parketið á stofunni. Pabbi ætlar svo að olíubera parketið á morgun og þá verður bráðlega hægt að fara að fara með húsgögn upp eftir. Mikið hlakka ég til!! Eigum eftir að eyða mörgum helgunum í sveitasælunni!!
Á morgun er starfsdagur í leikskólanum og verðum við mæðgur heima. Rebekka fékk að bjóða tveimur vinum í heimsókn og munu Helgi og Gréta mæta hér um 10 í fyrramálið í leikhitting. Ungfrúin er mjög glöð með það og ætlar að baka köku í fyrramálið. Hún er reyndar ekki sofnuð ennþá en hún er frekar morgunhress svo ég hef ekki þungar áhyggjur af því.
Annars erum við byrjaðar að ræða jólin. Rebekku finnst jólin voða merkileg og veit alveg að Jesú á afmæli þá . Hún er á fullu að teikna jólasveina og jólatré, að minni beiðni reyndar því mig langar að setja mynd eftir hana á jólakortin í ár. Við erum líka farin að undirbúa opið hús í vinnunni og þar með ýmislegt sem tengist jólunum. Mér finnst ég alltaf í rosa jólaskapi allan nóvember og fram í desember en svo kemur einhver tómleikatilfinning í mig. Sérstaklega á aðfangadag. Ég held að það sé vegna þess að ég vil ekki bíða í heilt ár eftir að geta endurtekið leikinn... En við Gústi erum byrjuð að kaupa jólagjafirnar og ætla ég að klára það sem fyrst og ekki eiga neitt svoleiðis eftir í desember! Langar bara að njóta aðventunnar yfir heitu kakói og smákökum... Ummmmmmmm
Góða nótt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2007 | 19:55
Jú, jú ég er ein af þeim sem hef lent í þessu og því skipti ég við erlent tryggingafélag!!
Neitað um líftryggingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)