Enn ein náðarfull helgi.

Ég er alltaf jafn hamingjusöm eftir hverja helgi og það er ekkert öðruvísi núna. Það er svo yndislegt að vera heima með fjölskyldunni og dúllast í kringum þau feðginin. Gústi fór ekkert upp í bústað að vinna þessa helgi heldur tók því bara rólega með okkur.

Ég átti alveg hreint frábæran föstudag. Ég ásamt tveimur samstarfskonum mínum fór á miðbæjarrölt eftir vinnu. Við löbbuðum Skólavörðustíginn, Laugarveginn og enduðum svo í Iðu yfir swissmokka. Við skoðuðum alls konar gallerí og búðir og svo alls konar föndurblöð í Iðu. Meðan við vorum á þessu rölti hringir eiginmaður annarar konunnar og bíður okkur stöllum í kvöldmat. Þau búa á Laugarveginum svo það var ekki langt að fara. Vá!! hvað maturinn var æðislegur og þessi maður er alveg hreint gull af manni. Hann dúllaði þvílíkt í kringum okkur með mat og drykk. Við fórum ekki heim fyrr en kl. 23!

Á laugardaginn fór Rebekka ásamt pabba sínum í íþróttaskólann og stóð sig með prýði eins og alltaf. Svo skruppu þau feðgin í nýju dótabúðina í Smáranum. Þar var í orðsins fyllstu merkingu troðið á tánum á þeim! Rebekka náði að kría hljóðfærapakka út úr pabba sínum. Hún stjórnar okkur nú harðri hendi í hljómsveit heimilisins. Einn spilar á trompet, einn á bassatrommu og einn á hristur. Svaka fjör hjá okkur, spurning með nágrannana...

Við Rebekka skelltum okkur á generalprufu hjá Leikfélagi Mosfellsbæjar á laugardagseftirmiðdag. Kona sem vinnur með mér er smínka og bauð okkur að koma. Elsti bróðir minn er reyndar að spila á trommur í sýningunni svo við vorum enn spenntari yfir að fara. Mamma kom líka með okkur og fyrsta fólkið sem við hittum voru Ragnar bróðursonur minn ásamt Anítu, Birgittu og Ólafi Atla barnabörnum Óla bróður. Rebekka fílar Ólaf Atla í tætlur og vildi ólm sitja hjá honum sem hún og gerði. Sýningin heitir Allt í plati og var bara mjög fín. Ég mæli með henni við alla foreldra. Helstu persónur eru Lína Langsokkur, Mikki refur, Lilli klifurmús og Karíus og Baktus. Rebekka var svolítið hrædd við Mikka en náði að spjalla við hann eftir sýninguna svo núna er hún alveg sátt við hann. Við hlustuðum svo á gamla útvarpsleikritið með Dýrunum í Hálsaskógi í gærkvöldi og sofnaði Rebekka útfrá því.

Í dag fóru feðginin í sunnudagaskólann. Ég fékk að lúra því ég lá svolítið lengi yfir kvikmynd í gærkvöldi... Gústi gafst upp á undan mér... Ég þreif svo íbúðina, á nefnilega von á saumóvinkonum á miðvikudagskvöldið... Ég tók reyndar þvottahúsið í nefið og fóru fimm pokar af rusli niður rennuna! Við vorum svo bara heima í dag. Bökuðum vöfflur og höfðum það næs. Er hægt að hafa það betra??


Akureyrarkirkja syðri...

Já, það er svolítið fyndið að dóttir okkar virðist laða að sér vini á leikskólanum sem eru ættaðir að norðan. Hún kynntist Helga besta vini sínum þegar hún byrjaði á leikskólanum síðasta haust. Ég kannaðist strax við mömmu hans og jú, jú hún var í Menntaskólanum á Akureyri á sama tíma og ég og við erum jafngamlar. Síðan bættist Tinna í hópinn með þeim Helga og mamma hennar er líka að norðan. Við Rebekka vorum í heimsókn hjá þeim og ég var að skoða fjölskyldualbúm og sá þá myndir af t.d. bílstjóranum sem keyrði mig í skólann nánast alla grunnskólagöngu mína og ekki nóg með það heldur rakst ég á gamlan séns líka... Well, þegar Rebekka, Helgi og Tinna fóru á nýju deildina sína kynntust þau stelpu sem heitir Gréta og viti menn, mamma hennar er að norðan! Svo veit ég um alla vega tvö önnur börn á deildinni sem eru að norðan. Við Akureyringarnir virðumst safnast öll saman hér í Grafarholtinu. Það á að fara að ákveða nafn á nýju kirkjunni hér í holtinu og sting ég hér með upp á Akureyrarkirkja syðri...


Frábær helgi...

Úff, hvað maður er nú búinn að hafa það gott um helgina!! Gústi var reyndar uppi í bústað að vinna á föstudaginn og í gær en við Rebekka höfðum það nú bara næs á meðan. Í gærmorgun fórum við mæðgur ásamt Helga Fannari, besta vini Rebekku, í íþróttaskólann. Þar voru þau tvö næstum búin að ganga frá þeirri gömlu því þau voru svo snögg í gegnum allar þrautir og ég hlaupandi á eftir að passa upp á að enginn dytti, rækist á næsta eða færi fram fyrir í röðinni... En við komum nú heil út úr þessu, röltum heim og buðum Helga með. Ég vissi nú bara ekki af þeim tveimur og skrapp í tölvuna ásamt því að kíkja á restina af kvikmynd á rúv. Silla kom svo með hin börnin sín tvö og góðgæti úr bakaríi og við kjöftuðum langa lengi eða þar til ég varð að rjúka í nuddið á Hótel Loftleiðum...

Vá, hvað það var æðislegt og by the way mér finnst að SSR hefði nú alveg getað splæst þessu á okkur ha/ha. Við gellurnar komum þvílíkt endurnærðar út úr þessu kínverska nuddi og fórum beint á veitingastaðinn á hótelinu og fengum okkur frábæran kvöldverð. Við sátum til rúmlega 9 og spjölluðum um allt og ekkert en þá fór ég til mömmu og náði í dúlluna mína og við fórum heim að lulla.

Í dag fór Gústi með Rebekku í sunnudagaskólann meðan ég gleymdi mér yfir Viden om á rúv. Mjög fróðlegur þáttur um IL6 hormónið... Við hittumst svo í bakaríinu og fengum okkur hádegismat. Svo var pabbi sóttur og við drifum okkur upp í bústað. Rósa og strákarnir komu svo líka og við áttum góða stund í bústaðnum. Þegar komið var aftur í borgina skruppum við í heimsókn til Óla og Addýar. Við komum frekar seint heim svo við elduðum bara einfalt - sakk og hakketí - lærið er enn í ísskápnum og bíður eftir eldun...


Maður er nú þreyttur eftir vikuna...

Já, það verður nú að segjast alveg eins og er. Það vantar enn starfsfólk til okkar og það þarf ekki nema einn starfsmaður að verða veikur til að álagið í vinnunni aukist stórlega... En nú lítum við bjartari tíma því það byrjaði ný stúlka hjá okkur í morgun og svo eru tvær í sigtinu... Spennandi hvað kemur út úr því.

Annars er vikan búin að vera góð. Var á Volare kynningu á þriðjudag og eyddi mjög miklum peningum þar... en málið er bara að þetta eru mjög góðar vörur og alveg þess virði. Miðvikudagur og fimmtudagur liðu í venjulegheitum... Komið heim eftir vinnu, leikið við elsku dótturina, eldaður matur og dúllunni komið í svefn. Ásta Hjálmars kíkti aðeins á mig á miðvikudagskvöldið en við erum að vinna að mjög spennandi verkefni... kemur í ljós á fyrstu mánuðum næsta árs hvað við erum að gera Whistling. Gústi var að spila í Samhjálp í gærkvöldi svo ég slátraði einni þunnri bók á meðan... Í dag fórum við Rebekka og Daníel í bíó. Við fórum að sjá Brettin upp og mæli ég með henni fyrir alla. Hún var mjög skemmtileg og góður boðskapur í henni. Sem betur fer voru bara ca. 10 manns í bíó því hún Rebekka mín var með rakettu í rassinum... klifraði á stólunum, fór á milli sætaraða, hljóp um og hoppaði. Endaði að sjálfsögðu í smá fangelsi í fangi múttu, vælandi um að hún skildi nú vera kyrr... en það entist nú ekki lengi Frown. Á leiðinni heim var hún samt alveg hörð á því að það hefði verið mjög gaman í bíó, þó svo hún hefði nú verið óþekk... Dahhhh! Ég bíð nú aðeins með að bjóða henni í bíó næst...

Kvöldið í kvöld: Heimabökuð pizza í kvöldmatnum, Gústi með ryksuguna á lofti, Rebekka að reyna að standa á haus á dýnu á gólfinu, ég að þvo þvott en núna sem stendur Gústi og Rebekka að syngja inni í herbergi...

Helgin verður vafalaust fín enda ýmislegt gott í boði. Íþróttaskóli í fyrramálið, nudd fyrir mig á Hótel Loftleiðum á morgun ásamt samstarfskonum mínum á deildinni minni, matur á Ítalíu eftir nuddið, sunnudagaskóli, barnakirkjan og heimboð...

Góða helgi! 


Ekkert kúrt um helgina...

... já það varð ekkert úr því að við Gústi kúrðum yfir eins og einni kvikmynd þessa helgina en við erum nú samt búin að hafa það ótrúlega náðugt. Í stað þess að Daníel og Benedikt kæmu og gistu hér á föstudagskvöldið var Rebekka boðin með þeim í "partý". Hún skemmti sér vel með krökkunum þar og borðaði góðan mat. Ég sótti hana svo um 9 leytið og hún auðvitað steinsofnaði í bílnum á leiðinni heim.

Á laugardagsmorgun hringdi svo Daníel og spurði hvort hann mætti koma með í íþróttaskólann, sætur... Smile. Þau skemmtu sér vel í skólanum og Daníel var mjög duglegur að fylgja Rebekku gegnum allar þrautabrautirnar. Einn íþróttakennarinn hafði á orði að Rebekka væri óvenju styrk og góð í æfingunum svo við ættum endilega að koma henni í íþróttir sem fyrst. Það er reyndar ætlunin svo hún fái góða útrás fyrir alla orkuna sem í henni býr. Við fórum svo í bakarí eftir íþr.skólann og fengum okkur góðan snæðing.

Um tvö leytið fengum við svo góða heimsókn en þá komu sætu systkinin Mikael Björn og Þórunn Eva Yngvabörn til okkar. Þau gistu svo hjá okkur og voru hjá okkur fram yfir kvöldmat í dag. Föðuramma þeirra liggur fyrir dauðanum svo foreldrar þeirra reyna að eyða sem mestum tíma hjá henni á líknardeildinni. Það var alveg hreint yndislegt að hafa þau. Við vissum ekki af þeim og Rebekka þurfti mjög litla athygli þar sem hún var með góða leikfélaga. Þau Mikael hafa alltaf átt sérstakt samband og verið miklir vinir. Þau rífast aldrei heldur ná alltaf einhvern veginn að leysa hlutina á svo skemmtilegan hátt. Það er búið að vera góð reynsla að hafa þrjú börn á líkum aldri.

Í dag fórum við öll í sunnudagaskólann og aftur í bakarí... Svo fóru börnin út að leika með Gústa og svo fórum við öll í kaffi til mömmu. Þar belgdu sig allir út af skúffuköku og muffins... Við fórum svo heim í stað þess að fara í barnakirkjuna því við vildum hafa til mat handa Alís og Yngva svo þau þyrftu ekki að vera að hafa fyrir eldamennsku... Við áttum svo góða stund með þeim og að lokum voru systkinin klædd í náttföt, tannburstuð og voru væntanlega sofnuð áður en þau komust heim Smile. Mörg "svo" í þessari málsgrein...

Gústi byrjar að vinna aftur í fyrramálið... ég hefði alveg verið til í að hafa hann heima aðeins lengur... en svona er nú bara lífið. Hann er reyndar búinn að vera mikið að vinna upp í bústað en það er búið að vera svo notalegt að hafa hann heima þegar við Rebekka erum að fara út úr húsi á morgnana. Þess fáum við bara að njóta 6 vikur á ári því hann mætir alltaf svo snemma til vinnu.

Jæja, nú er kominn háttatími, ný vinnuvika framundan en ótrúlegt en satt þá er ekkert kvöld í vikunni bókað!! Dásamlegt Grin


Það er búið að taka mig langan tíma...

... að jafna mig á því að tölvan skyldi eyðileggja síðustu færslu en nú er ég hætt í fýlu og ætla að segja nokkur orð! Á þessu heimili er alltaf nóg að gera. Gústi búinn að vera í sumarfríi (ef sumarfrí skyldi kalla) og er nánast allan tímann búinn að vera uppí bústað að vinna. Duglegur!! Við Rebekka erum bara í okkar gömlu rútínu, leikskóli og vinna...

Ég er hætt að taka strætó! Í tvær vikur kom ég alltaf of seint í vinnuna og var strætó að meðaltali 10 mínútum of seinn á degi hverjum. Í tilefni af því að ég gaf frat í strætó fór Gústi og keypti handa mér nýjan bíl Wink. Við erum á ný orðin Toyota eigendur (nú verður Biggi glaður...) og vonumst til að fá jólagjöf frá Toyota í ár... Gamla súkkan er enn hér á planinu og bíður eftir að dittað verði að henni og svo verður hún seld... Höfum akkúrat ekkert með tvo bíla að gera! En ég er þvílíkt ánægð með Toyotuna og finnst hún nú töluvert "smúþðari" en súkkan.

Var á foreldrafundi í leikskólanum í gærkvöldi. Ég er alltaf ánægðari og ánægðari með deildina hennar Rebekku minnar enda góðar áherslur í gangi og flott starfsfólk. Rebekka er líka mjög ánægð. Hún er í söngstuði þessa dagana og það er svo skemmtilegt að hún er mjög lagviss (hefur það algjörlega frá pabba sínum) en er ekki eins góð í að muna texta (hefur það líka frá pabba sínumTounge) en hún býr bara nýja texta til jafnóðum. Hún er svo sniðug, stelpan mín... og flott og dugleg og falleg og flínk og góð og og og bara allt!!!

Framundan fullt að gera. Daníel og Benedikt ætla að gista hjá okkur annað kvöld, íþróttaskóli á laugardaginn, Mikael Björn búinn að panta gistingu svo hann verður kannski hjá okkur á laugardagskvöldið, sunnudagaskóli, barnakirkjan á sunnudaginn og svo langar mig í bíó með Rebekku mína. Spurning hvort við Gústi kúrum saman yfir eins og einni kvikmynd um helgina... Það er svo notalegt InLove


Mjög hátt "ARG"

... ég var búin að skrifa heillanga færslu sem var auðvitað rosalega skemmtileg og fræðandi Wink en þá ákvað tölvudruslan að slökkva á sér!!! Angry

Nenni ekki að skrifa meira í kvöld svo ég segi fréttir seinna. Þeir sem vilja fréttir af okkur fyrr verða bara að taka upp tólið og hringja...


Íþróttaálfurinn okkar lærir að hlýða...

Við fórum í íþróttaskólann í gær og nú er Rebekka orðin Frammari! Veit ekki alveg hvernig ég á að höndla það... er alltaf KA-ingur hvar sem ég er... Rebekka var ekkert til í að gera neitt í íþróttaskólanum fyrst um sinn. Við Gústi tókum okkur saman og hundsuðum fýluna í henni og létum sem við værum nemendur og hlýddum íþróttakennaranum í einu og öllu. Well, það svínvirkaði og mín vildi ólm líka vera með. Sem betur fer var ennþá bara boltaleikur meðan við tókum þátt, hefði ekki alveg boðið í að hlaupa um, sveifla mér í köðlum og klifra í grindum! Rebekka gerðist íþróttastelpa þarna á 5 mínútum og leysti allar þrautir með stæl, eins og henni er einni lagið!! Það verður bara að segjast eins og er að hún er með frábæran hreyfiþroska stelpan!

DSC00569       DSC00576

 Í gær skruppum við svo til mömmu og Steindórs og fengum við þvílíku gjafirnar frá þeim úr úgglandinu. Rebekka fékk peysu, buxur og ÍÞRÓTTAskó og var þvílíkt ánægð! Gústi fékk rosa flottan bol og ég fékk hálsmen úr hvítagulli með demöntum. Þvílíkt flott! Við vorum nú samt mest ánægð með að vera búin að fá þau þeim... Smá eigingirni...

Mr. Bean í gærkvöldi ásamt heimabakaðri pizzu...


Margur verður af aurum múraður...

Í dag fórum við hjónakornin í bankann okkar sem staðsettur er í miðbænum og sóttum um nokkrar krónur að láni útá sumarbústaðinn okkar. Krónurnar ætlum við að nota til að klára að fríkka upp á bústaðinn og svo borga nokkrar aðrar óhagstæðar krónur sem við vorum nokkuð dugleg að safna á meðan ég var í námi, fæðingarorlofi o.s.frv. Alla vega, okkur fannst við vera að biðja um hryllilega háa upphæð en þá sagði þjónustufulltrúinn okkar að þetta væru nú bara smáaurar miðað við skuldir meirihluta fólks á okkar aldri sem er í viðskiptum hjá þeim... Jæja, þetta staðfesti enn frekar skoðun okkar á því að betra er að lifa aðeins ódýrara en kaffæra heimilinu í skuldum.

Já, við keyrum um á eldgömlum bíl miðað við flesta aðra bíla á götunum (´98) og við eigum bara 1 bíl, við verslum nánast allt til heimilisins í bónus, við kaupum flestan fatnað í frekar ódýrum búðum, við ferðumst eins ódýrt og við komumst upp með (ef okkur finnast ferðalög dýr þá gerum við bara eitthvað annað til að skemmta okkur), við eigum sko ekki nýjustu græjurnar - engan flatskjá, ipod eða dvd með upptöku, öll húsgögnin okkar höfum við keypt notuð nema rúmin okkar, rúmið hennar Rebekku og skrifborðið hennar og svona get ég haldið áfram. Þetta gerir það að verkum að ég get leyft mér að vinna ekki fulla vinnu og Gústi getur sinnt sínu áhugamáli af nokkurri festu. Við vinnum aldrei kvöld- eða helgarvinnu og mestur okkar tími fer í að sinna hvert öðru, Rebekku og nánustu fjölskyldu og vinum. Við ræktum okkar samband við Guð og við erum sannfærð um það að Hann gefur okkur nægjusemina sem þarf til að hafa hlutina svona. Auðvitað langar okkur oft að geta farið í búðir og keypt það sem okkur langar í en ef maður bara bíður af sér löngunina þá hverfur hún... Það er staðreynd.

Með þessu nýja láni breytist greiðslubyrði okkar og því munum við hafa meira á milli handanna til að borga skuldir hraðar niður. Ég fór nefnilega á námskeið hjá Ingólfi fjármálagúrú sl. vetur og lærði þar ýmislegt sem við getum nú farið að notfæra okkur. Gaman, gaman.

Annars er það að frétta að ég var heima frá vinnu í dag... Saknaði ungmennanna minna mikið... Ég vaknaði með hrikalegan höfuðverk sem ég get bara rakið til þreytu, vöðvabólgu og álags. Ég fór með Rebekku á leikskólann og svaf svo til kl. hálf 2. Eftir það leið mér mikið betur. Staðfesti grun minn um orsakavalda...

Mamma og Steindór koma heim í nótt frá Tyrklandi. Ég get varla beðið! Hlakka svo mikið til að fá mömmu heim já og Steindór auðvitað líka...

Rebekka er að byrja í íþróttaskóla í fyrramálið. Hún hlakkar mikið til þó svo hún viti nú ekkert hvað íþróttaskóli er... Hún heldur að hún sé að fara að læra hvernig hún á að gerast Íþróttaálfur LoL. Tilkynnti þetta með miklum hátíðleika í leikskólanum þegar við sóttum hana í dag. Hún er svo yndisleg. Svo er það sunnudagaskóli á sunnudaginn og barnakirkjan í Fíló á sunnudagseftirmiðdag. Ég var líka að frétta af barnaleikriti hjá Leikfélagi Mosfellssveitar um helgina... kannski við kíkjum á það... kostar bara 5oo kr. Mig langar samt ekki til að bóka helgina of mikið því síðastliðnar helgar hafa verið þó nokkuð pakkaðar...

Verð að lokum að segja frá því að ég skrapp í saumó á miðvikudagskvöldið. Það var alveg hryllilega gaman og mikið hlegið!! Ef einhver saumógellanna kíkja hér þá segi ég nú bara: takk stelpur fyrir frábært kvöld og fyrir að taka mér eins og ég er Wink.


Ævintýri vikunnar.

Jæja, þá er ég búin að taka strætó í vinnuna í tvo daga og keyra í einn... Þessa tvo daga sem ég tók strætó var hann fyrst 8 mínútum of seinn og svo 10 mínútum sem þýddi að ég var aðeins of sein í hús í vinnunni. Ég fékk nú engar skammir í hattinn fyrir það Wink. Í dag fór ég á bílnum þar sem ég þurfti að fara á fund vegna vinnunnar niður í vogahverfi. Ég var frekar fegin að vera á bíl þar sem himnarnir ákváðu að opnast upp á gátt í dag.... En strætó aftur í fyrramálið...

Brúðkaupið sl. sunnudag var hið fínasta. Hér má sjá hjónakornin... Fengu mjög fallegt veður og umhverfið skartaði sínu fallegasta þennan dag. Þá er sextugs afmælið hans Böðvars næst á skemmtidagskránni...

 DSC05840

Ég er búin að vera svolítið annars hugar síðustu daga þar sem smá veikindi hafa komið upp á ný hjá pabba. Við systurnar fórum með hann niður á spítala á laugardaginn og vorum þar nánast allan daginn. Hann var ekki lagður inn en fór til læknis aftur á mánudaginn sem breytti lyfjunum hjá honum og lagði honum aðeins lífsreglurnar. Þessi kynslóð fólks er alltof samviskusöm og er gjörsamlega búin að níðast á eigin líkama og sál með vinnu, álagi og aftur vinnu. En ég vona að pabbi fari nú að taka lífinu með meiri ró núna og hugsi betur um heilsuna.

Ég er nú eitthvað slöpp í dag og vona að ég sé ekki að verða veik. Hlýt að hressast við að skreppa í saumó í kvöld...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband